Kaffið.is stendur fyrir vali á Akureyringi ársins 2020 og geta lesendur nú tekið þátt í kosningu til að velja þá manneskju sem stendur út.
Blaðamenn og álitsgjafar Kaffið.is hafa valið ellefu aðila sem eiga nafnbótina skilið í ár.
Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri
Sigurður E. hefur stýrt sjúkrahúsinu á Akureyri í þessum faraldri. Verið duglegur að koma fram í fjölmiðlum, upplýsa um stöðuna og hvetja sitt starfsfólk. Starfsfólk sjúkrahússins stóð sig hreint ótrúlega í baráttunni við veiruna og við getum öll verið stolt af heilbrigðisstarfsfólkinu okkar.
Hermann Karlsson, varðstjóri í lögreglunni á Akureyri
Hermann hefur verið aðal maðurinn í aðgerðarstjórn almannavarna á Akureyri, haldið fólki upplýstu um stöðu veirunnar á svæðinu og unnið mikilvægt starf hjá lögreglunni á fordæmalausum tímum.
Atli Örvarsson, tónskáld
Atli Örvarsson var tilnefndur til Grammy-verðlauna á árinu fyrir tónlist í kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire and Saga. Atli hefur þá unnið mikilvægt starf fyrir tónlistarlíf í bænum og unnið að því að fá fyrirtæki á borð við Netflix til að starfa á Akureyri.
Sjá einnig: Atli tilnefndur til Grammy-verðlauna
Eigendur og starfsfólk Kurdo Kebab
Fyrir framlag sitt til matarflórunnar í bænum og fyrir að lífga upp á daginn hjá viðskiptavinum sínum.
Sjá einnig: Kurdo pizza opnar á morgun við Ráðhústorg
Sunna Ósk Jakobsdóttir og Sigrún Steinarsdóttir, stofnendur Matargjafa á Akureyri og nágrenni
Facebook-hópurinn Matargjafir Akureyri og nágrenni er hópur sem hjálpar fjölskyldum sem hafa lítið milli handanna. Það eru þær Sunna Ósk og Sigrún Steinarsdóttir sem halda úti síðunni og sjá um að taka á móti framlögum og dreifa til þeirra sem eiga lítið yfir hátíðarnar. Þessi síða hefur hjálpað ótrúlega mörgum í gegnum árin og unnið ómetanlegt starf fyrir þá sem þurfa á aðstoðinni að halda. Síðan er starfrækt allt árið en sérstaklega margar fyrirspurnir berast í kringum hátíðarnar og meira hefur verið að gera í ár en áður.
Sjá einnig: Matargjafir Akureyrar og nágrennis fékk eina milljón í styrk frá Nettó
Hjúkrunarfræðingar SAk og HSN
Hjúkrunarfræðingar á heilsugæslunni á Akureyri sinntu almennri þjónustu auk þess að svara öllum símtölum vegna Covid, bóka í sýnatökur og taka öll þau sýni sem þarf að taka í tengslum við faraldurinn á svæðinu. Hjúkrunarfræðingar eru sannarlega hetjur sem færðu miklar fórnir á árinu til þess að koma okkur í gegnum baráttuna við heimsfaraldurinn.
Sjá einnig: Kveðjuathöfn á Covid-deild Sak þegar síðasti Covid sjúklingurinn var útskrifaður í morgun
Eiríkur Helgason, atvinnumaður í brettaíþróttum
Eða Eiki, eins og hann er yfirleitt kallaður, hélt áfram að skara framúr í sínum íþróttagreinum ásamt því að vinna ótrúlega óeigingjarnt starf við það að koma á fót Brettaaðstöðu hér í bænum. Braggaparkið opnaði á árinu og hefur slegið í gegn á Akureyri.
Sjá einnig: Seinni hluti Braggaparksins að klárast: „Margir krakkar að reyna að sannfæra foreldra sína að flytja norður“
Slökkviliðsfólk á Akureyri
Það mæddi mikið á slökkviliðsfólki á Akureyri á árinu. Það var óvenju mikið um stóra bruna á árinu og þá sinnir slökkviliðið einnig sjúkraflugi fyrir Vestfirði, Norðurland og Austurland að Höfn í Hornafirði ásamt mörgum öðrum mikilvægum störfum.
Sjá einnig: Eldur í timburhúsi við Hafnarstræti
Aðalheiður Einarsdóttir, íbúi á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri
Aðalheiður afrekaði það að hjóla 832 kílómetra á 20 dögum. Aðalheiður var hluti af liði Hlíðar í alþjóðlegri hjólakeppni eldri borgara, Road Worlds for Seniors. Magnað afrek hjá þessari 96 ára ofurkonu.
Sjá einnig: Aðalheiður hjólaði 832 kílómetra á 20 dögum
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar
Árið 2020 var óvenjulegt fyrir alla og enginn gat búið sig undir það sem hefur gengið á en Ásthildur hefur leyst starf sitt sem bæjarstjóri með prýði.
Sjá einnig: Höfuðáhersla lögð á að verja viðkvæmustu hópana
Friðrik Ómar Hjörleifsson, söngvari og skemmtikraftur
Friðrik Ómar lagði sitt af mörkum við það að hjálpa fólki að hafa gaman í gegnum Covid-19. Til að mynda stofnaði hann Facebook-grúppuna Alltaf Gott Veður á Akureyri sem hefur slegið í gegn og svo skemmti hann íbúum á öldrunarheimilum Akureryarbæjar ásamt Valmari Väljaots svo eitthvað sé nefnt.
Sjá einnig: Friðrik Ómar og Valmar skemmtu íbúum á Öldrunarheimilum Akureyrar – Myndband
Aðeins er hægt að kjósa einu sinni. Atkvæðið er talið þegar að vefurinn endurhleðst. Kjóstu hér að neðan:
UMMÆLI