Í gær var starfsfólki Glerárlaugar á Akureyri tilkynnt það bæjarstjórn myndi taka fyrir tillögu um lokun aðgengis almennings að lauginni á fundi sínum í dag.
„Það var dapurt starfsfólk og reiðir og sárir viðskiptavinir sem ræddu málin í Glerárlaug í gærkvöldi. Ég er þegar í eigin persónu búin að senda forseta velferðarráðs og forseta bæjarstjórnar mitt persónulega álit, en það má alveg vekja athygli á þessari aðför að þeim veika hópi sem eru aldraðir og fatlaðir og sækja sér heilsu og færni einmitt í þessari einu innilaug sem þeir hafa aðgang að og sem er hönnuð með þarfir færnisminni í huga,“ segir einn fastagestur laugarinnar við Kaffið í dag.
Bæjarstjórn fundar í dag en á dagskránni er meðal annars fyrri umræða um fjárhagsáætlun bæjarins, seinni umræða um breytingar á samþykkt um stjórn og fundarsköp bæjarins, samþykkt bifreiðastæðasjóðs og gjaldskrá hans. Fundurinn verður haldinn í Hömrum i Hofi og er öllum opinn. Sjónvarpað er frá fundinum daginn eftir, miðvikudaginn 17. nóvember kl. 14:00, á sjónvarpsstöðinni N4.