Gæludýr.is

Tillaga að nýjum verslunarkjarna í miðbæ SiglufjarðarMynd/Fjallabyggð

Tillaga að nýjum verslunarkjarna í miðbæ Siglufjarðar

Fulltrúar T. Ark Arkitekta þau Ásgeir Ásgeirsson og Ingunn Lilliendahl kynntu hugmyndir KSK eigna ehf. um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Siglufjarðar á fjölsóttum íbúafundi sem haldinn var í Ráðhúsinu á Siglufirði sl. miðvikudag. Markmið breytingartillögunnar er að skipuleggja nýja lóð fyrir verslunarkjarna sem mun m.a. hýsa nýja verslun Samkaupa hf. ásamt öðrum verslunum eða þjónustu. Þetta kemur fram á vefsíðu Fjallabyggðar, þar segir einnig:

Til að leiðrétta misskilning sem upp kom á fundinum þá er sveitarfélagið hvorki búið að samþykkja breytingar á deiliskipulagi né búið að úthluta viðkomandi aðilum lóðina sem um ræðir, heldur einungis veita heimild til að vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi því, sem nú er til kynningar.

Forsaga málsins er sú að T. Ark Arkitektar sendu erindi til skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar í maí sl. fyrir hönd KSK eigna ehf. þar sem óskað var eftir vilyrði fyrir lóð sem myndi hýsa nýja verslun Samkaupa , ásamt minni verslunum og/eða þjónustu. Lóðin sem um ræðir er í miðbæ Siglufjarðar, þar sem í dag er tjaldsvæði. Þá óskuðu þessir aðilar jafnframt eftir heimild til að vinna breytingu á deiliskipulagi miðbæjarins í samvinnu við skipulagsyfirvöld ef vilyrði fyrir lóðinni yrði samþykkt. Á fundi 22. maí sl. samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar að veita umsóknaraðilum þá heimild að vinna hugmynd að breytingu á deiliskipulaginu.

Eins og lög gera ráð fyrir hefur tillaga T. Ark Arkitekta verið kynnt bæði í skipulags- og umhverfisnefnd og á fundi bæjarstjórnar, ásamt því að haldinn var almennur íbúafundur til kynningar á þeim hugmyndum sem T. Ark Arkitektar hafa lagt fram fyrir hönd sinna umbjóðenda. Líflegar umræður urðu á íbúafundinum líkt og búast mátti við þegar um svo viðamiklar framkvæmdir er að ræða.

Ferlið framundan er að nú verður tillagan auglýst með formlegum hætti skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá geta allir sent inn athugasemdir varðandi tillöguna, en glugginn til að senda inn athugasemdir er 6 vikur. Þegar frestur til athugasemda er liðinn mun skipulags- og umhverfisnefnd fara yfir athugasemdirnar og taka efnislega afstöðu til þeirra með tilliti til hvort gera skuli breytingar á tillögunni í samræmi við þær. Allar þær athugasemdir sem berast munu fá efnislega umfjöllun og þeim aðilum sem senda inn athugasemdir verður send umsögn varðandi athugasemdirnar, líkt og lög gera ráð fyrir (42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010).

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó