Gæludýr.is

Til hvers að nenna að kjósa?

Edward H. Huijbens skrifar:

Enn er komið að kosningum, þær þrettándu eftir bankahrunið í október 2008. Það er von að þreyta sé komin í marga að þurfa að mæta á kjörstað og ýmsir spyrja: Til hvers? Iðulega heyrist viðkvæðið að það breytist hvort eð er ekkert og það sé sami rassinn undir öllu þessu stjórnmálafólki. Hér birtist okkur vandi. Í hruninu hrundi nefninlega nokkuð meira en bara fjármálakerfi landsins. Traust og tiltrú á stjórnmálum hrundi. Fjármálakerfið var endurreist, því miður í svipaðri mynd og var, og efnahagslífið náði sér hratt upp, en traustið er enn í molum.

Það mikla vantraust sem ríkir á stjórnmálum á Íslandi er vantraust á lýðræðisfyrirkomulagið, vantraust á samráð, samtal, samvinnu og lausnir í þágu almannahags. Ein afleiðing er fjöldi framboða með einfaldar lausnir og grípandi slagorð sem allir geta samsamað sig við. Sú staðreynd að 16 framboð bjóða fram í Reykjavík, kjörseðillinn sé um metri og þar séu listuð um 750 nöfn er ekki hraustleikamerki á lýðræðinu, heldur veikleikamerki að mínu viti. Það er því nú, sem aldrei fyrr, sem mikilvægt er að kjósa. Við megum ekki bera við þreytu og að nenna ekki. Með því færum við valdið í hendur þeim sem færa fram skyndilausnir, án samráðs og vandaðra vinnubragða. Á endanum komast til valda kónar líkir Trump vestanhafs og þá held ég að afar fái hagnist, en þeir munu hagnast mikið.

Verkefni okkar nú og næstu árin er að endurreisa traust á stjórnmál á Íslandi. Það er ekki verkefni stjórnmálafólks einungis, það er verkefni okkar allra. Hvert atkvæði skiptir máli og hverju atkvæði fylgir ábyrgð. Við öll getum haft áhrif á hvort traustið verði endurheimt, en það er forsenda framtíðar velsældar hér  á landi fyrir alla.

Edward H. Huijbens, er varaformaður VG og skipar 3. sætið á lista VG á Akureyri

Sambíó

UMMÆLI