Kjarni var eitt sinn konungsjörð. Upp úr aldamótunum 1800 flutti Gunnlaugur Briem heim til Íslands frá Kaupmannahöfn eftir að hafa stundað nám í höggmyndalist með vini sínum Bertel Thorvaldsen. Sýslumaðurinn flutti í Kjarna árið 1807 ásamt Valgerði eiginkonu sinni og barnahópi sem stækkaði ört á þessum árum. Hjónin bjuggu þar til ársins 1815 þegar þau fluttu að Grund í Eyjafirði.
Á þessu átta ára tímabili sem heiðurshjónin bjuggu í Kjarna, gerðu þau bæjarstæðið í Kjarna prýðilegt, stækkuðu bæinn og fegruðu nánasta umhverfi. Kjarni varð stórbýli í tíð Gunnlaugs og Valgerðar og margar eftirminnilegar persónur urðu á vegi þeirra hjóna á þeim tíma; landmælingamennirnir Frisak og Scheel, Biblíumaðurinn Ebenezer Henderson og hundadagakonungurinn Jörundur.
Í dag er fátt sem minnir á dvöl Gunnlaugs Briem, Valgerðar og barnanna þegar gengið er um á útivistarsvæðinu í Kjarnaskógi. Ritaðar heimildir gefa þó von um að einhver ummerki um veru þeirra þar leynist enn á milli trjánna eða við lækjarsprænur. Hvar skyldi myllan hafa staðið sem Henderson minnist á í ferðabók sinni? Kannski lék Ólafur litli Briem sér við mylluna, sá er síðar varð timburmeistari. Hvar er vatnslindin sem talin var hafa lækningamátt? Drakk Jóhanna fagra úr lindinni sem barn – lindinni sem heimilisfólk í Kjarna vissi um fram á 20. öldina þegar hún hvarf skyndilega! Svo er það steinninn á bæjarstæðinu, svokallaður hestasteinn, sem gestir í Kjarna notuðu til að binda hesta sína við á meðan þeir ræddu við sýslumannshjónin og nutu veitinga. Hvað varð um hann?
Áhugasöm um sögu Gunnlaugs Briem fagna 250 ára fæðingarafmæli hans um þessar mundir. Gunnlaugur fæddist janúar árið 1773. Hann lést árið 1834.
Fyrir þá sem vilja kynna sér sögu Gunnlaugs Briem, Valgerðar og barnanna má benda á hlaðvarpsþætti Grenndargralsins Leitin að Grundargralinu.
Heimild: Grenndargralið.
UMMÆLI