Þýska flugfélagið Condor flýgur til Akureyrar og Egilsstaða sumarið 2023

Þýska flugfélagið Condor flýgur til Akureyrar og Egilsstaða sumarið 2023

Þýska flugfélagið Condor hefur ákveðið að hefja áætlunarflug til Akureyrar og Egilsstaða sumarið 2023. Flogið verður frá maí og til loka október í hverri viku bæði milli Frankfurt og Akureyrarflugvallar annars vegar og Frankfurt og Egilsstaðaflugvallar hins vegar. Þetta er í fyrsta sinn sem flugfélagið Condor flýgur til Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu Markaðsstofu Norðurlands.

Ferðalangar frá Frankfurt geta bókað flug á tímabilinu sem og farþegar frá Akureyri og Egilsstöðum. Hægt er að bóka flugferðir á vef Condor.

„Ísland er einn af vinsælustu áfangastöðunum í norðri,“ segir Ralf Teckentrup, framkvæmdastjóri Condor. „Við hlökkum til að bjóða viðskiptavinum okkar að uppgötva þennan fjölbreytta og fallega áfangastað. Með tengingu til Akureyrar og Egilsstaða erum við að bregðast við eftirspurn frá fjölmörgum ferðaþjónustuaðilum sem bjóða upp á ferðir á Norður- og Austurlandi.“

„Það er afar ánægjulegt að flugfélagið Condor hafi ákveði að velja Akureyri og Egilsstaði sem fyrstu áfangastaði sína á Íslandi,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri isavia Innanlandsflugvalla. „Þessi ákvörðun Condor er afrakstur af öflugu kynningarstarfi Austurbrúar, Isavia Innanlandsflugvalla, Íslandsstofu og Markaðsstofu Norðurlands þar sem áhersla hefur verið lögð á þróun fleiri gátta inn í Ísland. Þá hefur framlag íslenskra stjórnvalda til verkefnisins skipt máli. Öll þessi vinna er farin að bera ávöxt og tökum við fagnandi á móti Condor.“

Þýska flugfélagið Condor hefur verið starfrækt í rúmlega 66 ár. Það flýgur með ríflega níu milljón farþega árlega frá stærstu flugvöllum í Þýskalandi, Sviss og Austurríki til um níutíu áfangastaða víðs vegar um Evrópu, Bandaríkin og Afríku.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó