Þyrlur koma nokkuð við sögu í fréttamyndum af eldgosinu á Reykjanesskaga. Núorðið þykir ekkert tiltökumál þótt hér sjáist til þyrlu í háloftunum en þannig hefur það ekki alltaf verið. Um miðja 20. öldina sást þyrla í fyrsta skipti á Akureyri. Heimsókn amerísku þyrlunnar – þessarar mikilfenglegu uppfinningar mannsins – hefur án vafa fyllt margan bæjarbúann stolti. Á sama tíma og farartækið sveimaði yfir bænum, var undirbúningur á lokastigi fyrir tímamótaflug tveggja þyrlna frá Bandaríkjunum yfir Atlantshafið, með viðkomu á Íslandi. Stoltið yfir hugviti og kröftum mannsandans var ekki minna úti í hinum stóra vestræna heimi.
Átök austurs og vesturs voru greinileg sumarið 1952 þegar skip úr bandaríska flotanum lá við bryggju á Akureyri. Bandaríkjamenn voru að undirbúa vetnissprengju í tilraunaskyni sem sprengja átti á Marshall-eyjum í nóvember og fyrstu vopnuðu átök Kalda stríðsins geysuðu í Kóreu. Um borð í flutningaskipinu var framandi loftfar sem notað var við leit að heppilegum stöðum til að koma upp ratsjám. Allt var þetta hluti af því að koma vörnum landsins í sem besta horf gagnvart hinu illa úr austri. Dagur greindi frá heimsókn fyrstu þyrilflugunnar til Akureyrar þann 14 júlí.
Hér kom fyrir helgina amerískt flutningaskip, tilheyrandi sjóhernum, og hafði meðferðis þyrilflugu (helicopter). Hóf flugan sig upp af þilfari skipsins hér við Torfunefsbryggju á mánudagsmorguninn og flaug síðan hér umhverfis bæinn. Er þetta í fyrsta sinn, sem slík flugvél sést á flugi hér. Flugvélin settist jafnauðveldlega á þilfar skipsins, stanzaði í loftinu í nokkurri hæð og seig síðan hægt niður á þilfarið.
Daginn eftir að bæjarbúar virtu fyrir sér þyrlu hið fyrsta sinn, hófu tvær Sikorsky-þyrlur sig til flugs frá Bandaríkjunum áleiðis til Þýskalands. Flugmenn þyrlanna Hop-A-Long og Whirl-O-Way freistuðu þess að verða fyrstir til að fljúga þyrlum austur yfir Atlantshaf, til meginlands Evrópu með viðkomu á nokkrum stöðum, m.a. á Íslandi. Markmiðið var að kanna burði þyrlnanna til langflugs. Flugið gekk stóráfallalaust fyrir sig. Þyrlurnar lentu í Keflavík þann 29. júlí en fluginu lauk í Wiesbaden þann 4. ágúst eftir 20 daga ferðalag.
Auk Keflavíkur, lentu Sikorsky-þyrlurnar í Narsarsuaq á Grænlandi og Prestwick í Skotlandi á leið þeirra yfir Atlantshafið í júlí 1952. Fjölmiðlar víða um heim fylgdust með ferð þeirra og fólk flykktist á flugvellina til að berja þær augum. Þyrilflugan sem heillaði Akureyringa í sama mánuði kom víða við á flugi sínu um Norðurland. Hún lenti m.a. í Grímsey og á íþróttavellinum á Siglufirði og vakti óskipta athygli. Nú er öldin önnur. Þyrilflugurnar sveima um eins og hverjar aðrar flugur og lenda í grennd við gosstöðvarnar. Heimsbyggðin lætur sér fátt um finnast en fyllist aðdáun yfir ógnarkröftum náttúrunnar.
Heimild: Grenndargralið
UMMÆLI