NTC

,,Þú lítur svo vel út”

,,Þú lítur svo vel út”

Við lifum í samfélagi þar sem mikil áhersla er lögð á heilbrigði. Heilbrigður líkami og sál. Betri lífsgæði og lengra líf. Flestir eru til í það. En það getur verið erfitt að mæla heilbrigði. Það getur verið erfitt að vita hvar fólk stendur. Og því er þessi tilhneiging að meta þyngd og líkamslögun. Það er nefninlega mælanlegt. Það er sýnilegt. En málið er að það er svo margt annað sem hefur áhrif á hvort við erum heilbrigð eða ekki.

Það er hættulegt að vera með athyglina svona mikið á þyngd og líkamslögun af því að margir enda með því að fórna heilbrigði sínu til að viðhalda ákveðinni þyngd eða líkamslögun. Af því að samfélagið segir okkur að það sé heilbrigt og fallegt. Samfélagið samþykkir óheilbrigða hegðun til að viðhalda ákveðnu útliti. Og það er ekki einungis fólk úti í bæ sem hefur þessi áhrif heldur líka heilbrigðisstarfsfólk og fagaðilar. Þau eru líka upptekin af því að nota þyngdina sem mælikvarða.

Til að breyta þessu hugarfari þurfum við að venja okkur af því að koma með athugasemdir sem beina athyglinni að þyngd einstaklings. ,,Hefur þú nokkuð gott af því að fá þér aðra kökusneið?” ,,Guð þú ert svo horuð, færðu ekkert að borða heima hjá þér?” ,,Ég sé þú ert komin með smá bumbu framan á þig”. Svona athugasemdir ýta undir að einstaklingar verða uppteknir af þyngd og líkamslögun. Það ýtir undir brenglað samband við mat, hreyfingu og líkama. Og það getur leitt til einhvers konar átröskunar. Þá erum við sko sannarlega komin langt frá heilbrigði.

Það er kannski ekki svo algengt að fólk tali beint um þyngd annarra en þyngdarbreytingar vekja hins vegar yfirleitt athygli. Þegar einstaklingur léttist fær hann að heyra hvað hann lítur vel út. Hvað hann sé hraustur og flottur. Þyngdartapinu er fagnað sem hinu mesta afreki. Já, vissulega getur þyngdartap stundum verið skref í átt að betra heilbrigði. En við vitum hins vegar ekki hvað er á bakvið þyngdartapið. Kannski hefur einstaklingurinn verið að glíma við einhvers konar veikindi og ekki haldið neinum mat niðri í langan tíma. Kannski er einstaklingurinn að glíma við langvinnan sjúkdóm sem veldur þyngdartapi. Eða þá að einstaklingur hefur framkallað þyngdartap með óheilbrigðum leiðum, s.s. með því að svelta sig, stunda ofhreyfingu eða kasta upp matnum. Og þegar við hrósum þessum einstakling fyrir niðurstöðurnar erum við að ýta undir þessa hegðun. Þegar okkur langar að koma með athugasemd á útlit viðkomandi, prófum að spyrja í staðinn hvernig viðkomandi líði þessa dagana. Sleppum því að tala um þyngdartapið og vekjum frekar athygli á innri líðan og heilbrigðum lífsvenjum. Eða tölum einfaldlega um annað sem skiptir máli í lífinu. Fjölskylda, vinir, draumar, ástríða og gildi. Eitthvað sem getur blómstrað í lífi okkar vegna góðrar líkamlegrar og andlegrar heilsu. Góð heilsa er frábær en möguleikarnir sem hún gefur í lífinu, það er það sem við erum að sækjast eftir.

Svo er það hinn endinn. Þyngdaraukning. Á meðan þyngdartap er afrek og eitthvað jákvætt þá er alltof oft litið neikvætt á þyngdaraukningu. Einstaklingur sem þyngist upplifir að hann sé latur, gráðugur og skortir sjálfsaga. Kannski segir enginn neitt við hann en það liggur í loftinu. En eins og sumir þurfa að léttast til að öðlast meira heilbrigði þá eru einstaklingar sem þurfa að þyngjast. Og í samfélaginu okkar getur það verið erfitt. Sérstaklega þegar allt miðar einhvern veginn að þyngdartapi. Með því að færa athyglina frá þyngd og þyngdarbreytingum getur verið auðveldara fyrir einstaklinga að takast á við þyngdaraukningu. Hver sem ástæðan er fyrir henni.

Það er nefninlega mikilvægt að muna að líkami okkar er lifandi fyrirbæri sem breytist með tíð og tíma. Það er fullkomlega eðlilegt að við þyngjumst og léttumst eftir tímabilum. Konur bæta á sig eftir meðgöngu. Einstaklingar léttast vegna veikinda. Sumir bæta á sig vegna meiðsla sem hindra hreyfingu. Og þegar það er heimsfaraldur í gangi og margir í útgöngubanni, þá er ekkert óeðlilegt við það að bæta á sig nokkrum kílóum. Það er fullkomlega eðlilegt að þyngd og líkamslögun breytist með aldrinum og sömuleiðis eftir tímabilum. Það er hluti af því að þroskast og einfaldlega lifa lífinu. En lífið er svo miklu meira en þyngdin okkar. Þyngdin er að sjálfsögðu þáttur sem getur haft áhrif á heilbrigði okkar en það er svo margt annað sem spilar líka inn í. Hvernig við borðum, hreyfum okkur og sofum. Hvernig við sinnum andlegu heilsunni. Hvernig við ræktum félagsleg tengsl. Hegðun okkar mótar heilbrigðið miklu frekar en tala á vigt. Og ef að við lifum virkilega heilbrigðum lífstíl þá eru allar líkur á að með tímanum muni líkaminn færa sig í þá þyngd sem honum líður vel í. Besta þyngdin fyrir þig er sú þyngd sem líkaminn nær þegar þú lifir heilbrigðu lífi sem þú nýtur. Og ef að sú þyngd er ekki samþykkt af samfélaginu er mikilvægt að hlusta ekki á það. Þú og þinn líkami vitið betur. Það er líka alltaf gott að hafa bakvið eyrað að þó við myndum öll borða og hreyfa okkur nákvæmlega eins, þá værum við enn þá með ólíka líkama. Okkur er ekki ætlað að vera öllum steypt í sama mót, hvort sem það er þyngd, líkamslögun, hárlitur, persónueinkenni eða skóstærð.

Ég fæ aldrei nóg af því að tala og skrifa um líkamsvirðingu, fjölbreytileika og heilbrigði. En að tileinka sér þetta í daglegu lífi, það er ekki beint auðvelt. Þess vegna held ég stöðugt áfram að skrifa og minna sjálfa mig á. Svo er það mikill bónus ef ég get vakið áhuga fólks. Við sem samfélag höfum nefninlega byggt upp og viðhaldið ákveðinni megrunarmenningu með áherslu á þyngd og útlit. Góðu fréttirnar eru hins vegar að við getum breytt þessari menningu. En þá skiptir öllu máli hvað við segjum, gerum og líka hugsum. Það er vinnan okkar framundan.

*The scale can only give you a numerical reflection of your relationship with gravity. That’s it. It cannot measure beauty, talent, purpose, life force, possibility, strength or love*


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI