Þrjú vítaklúður þegar KA tapaði toppslagnum á DalvíkSteinþór varði eina vítaspyrnuna. Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson

Þrjú vítaklúður þegar KA tapaði toppslagnum á Dalvík

Rosalegum leik KA og Vals í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu var að ljúka. Valur fór að lokum með 1-0 sigur í leiknum sem var ansi viðburðarríkur.

Fyrri hálfleikurinn var mjög líflegur og bæði lið fengu góð tækifæri til þess að komast yfir. Í lok hálfleiksins fengu KA menn vítaspyrnu sem að Jonathan Hendrickx tók. Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, varði þó vítið og staðan í hálfleik jöfn, 0-0.

Valsmenn fengu svo vítaspyrnu á 75. mínútu leiksins en Steinþór Már, Stubbur, í markinu hjá KA varði vítið en hann var sjálfur brotlegur þegar vítaspyrnan var dæmd. Patrick Pedersen klúðraði vítinu en hann bætti upp fyrir það aðeins tveimur mínútum síðar og kom Valsmönnum yfir í leiknum.

KA menn fengu þriðju vítaspyrnu leiksins skömmu síðar og í þetta skiptið fór belgíski miðjumaðurinn Sebastiaan Brebels á punktinn en spyrna hans endaði í slánni og því önnur spyrna leiksins sem fór forgörðum hjá KA.

Leiknum lauk svo með 1-0 sigri Vals sem er áfram á toppi deildarinnar, nú með sjö stigum meira en KA. KA menn eru í þriðja sæti deildarinnar en eiga þó tvo leiki til góða á Val og geta minnkað forskot Valsmanna niður í eitt stig með sigrum í þeim leikjum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó