Þrjú umferðarslys og einn fíkniefnaakstur síðastliðinn sólahring

Það gekk mikið á hjá lögreglunni síðastliðin sólahring þegar þrjú umferðarslys og einn fíkniefnaakstur áttu sér stað með stuttu millibili. Lögreglan á Norðurlandi eystra gaf út tilkynningu á facebook síðu sinni í dag þar sem atburðarásin er rakin.

Klukkan 18 í gær varð árekstur milli tveggja bifreiða á Hringvegi við Laugaland á Þelamörk. Tveir bílar voru á suðurleið þegar aftari ökumaðurinn hugðist taka fram úr en fipraðist við aksturinn með þeim afleiðingum að bifreið hans rakst utan í hestakerruna sem fremri bíllinn hafði í afturdragi. Hestakerran losnaði frá bifreiðinni og fór út af veginum ásamt bifreiðunum tveimur. Þá þurfti að klippa ökumanninn úr fremri bifreiðinni og allir þrír farþegar bifreiðanna voru fluttir á Sjúkrahúsið en meiðsl eru þó ekki talin alvarleg.

Um tvö leytið aðfaranótt sunnudags er ökumaður undir áhrifum fíkniefna stöðvaður framan við Engimýri í Öxnadal, eftir eftirför frá Þingvallastræti á Akureyri. Þá segir í tilkynningu frá lögreglu að ökumaður hafi ekki sinnt stöðvunarmerkjum hennar, ók tvívegis mót rauðu ljósi, og ók á ofsahraða norður úr bænum og síðan suður Hörgárdal og Öxnadal. Við tilraun lögreglu til að fá hann til þess að stöðva ók hann utan í eina lögreglubifeið en skömmu síðar tókst að stöðva för hans og hann handtekinn í kjölfarið.

Tveimur tímum síðar, um fjögur leytið, veltur bifreið út af Hringvegi vestan við Ólafsfjarðarveg. Ökumaður og þrír farþegar voru fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri með sjúkrabifreið en meiðsl ekki talin alvarleg.

Um hádegi í dag var tilkynnt um mótorhjólaslys á Eyjafjarðarleið F-821 um 10 km. norður af Laugarfelli. Segir í tilkynningu frá lögreglu að þarna voru á ferð ökumaður og farþegi. Ökumaður var að aka upp brekku og ók á stein sem var á veginum. Hann stöðvaði hjólið en missti jafnvægið og hjólið datt á hægri hlið. Við það klemmdist fótur á farþeganum undir hjólinu. Farþeginn er talin vera fótbrotin. Bæði ökumaður og farþegi notuðu viðurkenndan öryggisbúnað. Hálendiseftirlit björgunarsveitanna fór á staðinn úr Nýjadal og Björgunarsveitin Dalbjörg fór með sjúkraflutningamann úr Eyjafirði á móts við þá. Farþeginn var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri og var kominn þangað um kl. 16:45.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó