Þrjú erlend skip í viðhaldsverkefnum hjá Slippnum

Þrjú erlend skip í viðhaldsverkefnum hjá Slippnum

Þrjú erlend skip eru nú í viðhaldsverkefnum hjá Slippnum Akureyri og það fjórða bætist við innan nokkurra daga. Bjarni Pétursson, sviðsstjóri skipaþjónustu Slippsins, segir þetta vera mjög óvenjulegt á þessum árstíma en jafnframt afar jákvætt. Öðru fremur segir hann verkefnin undirstrika sterka samkeppnisstöðu fyrirtækisins á skipaþjónustusviðinu en um er að ræða frystitogara og línuskip frá Kanada og grænlenskan frystitogara og eru viðhaldsverkefnin í skipunum mjög fjölbreytt. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook síðu Slippsins þar sem er rætt við Bjarna.

Fjölþætt viðhaldsverkefni

„Kanadíska línuskipið Kiwiuq I hefur verið hjá okkur í nokkurs konar vetrargeymslu en með vorinu munum við ljúka nokkrum viðhaldsverkefnum um borð. Síðan erum við komnir á fullt í verkefnum í Saputi sem er frystitogari af stærri gerðinni frá Kanada. Þar eru stórverkefni; stálviðgerðir, viðgerðir á spilum, málun á millidekki, viðgerð á togblökkum, viðgerð á stýri og heilmálun, svo nokkuð sé nefnt. Þetta er mjög skemmtilegt og viðamikið verkefni fyrir okkur,“ segir Bjarni en þriðja skipið er grænlenski frystitogarinn Angunnguaq II og þar segir Bjarni sömuleiðis um að ræða fjölbreytt viðhaldsverkefni, bæði innan skips og á ytra byrði.

„Finnum að viðskiptavinir treysta okkur“

„Í reynd endurspegla þessi verkefni afar vel þann styrk sem við höfum í skipaþjónustu Slippsins Akureyri til að takast á við fjölbreytt viðhaldsverkefni í skipunum. Við höfum á að skipa miklum hæfileikum, þekkingu og reynslu í starfsmannahópnum og aðstöðu til að leysa verkefnin og við finnum vel að viðskiptavinirnir treysta okkur,“ segir Bjarni en erlendu verkefnin segir hann bæði koma í gegnum útboð og almennar fyrirspurnir.

„Það er mikil samkeppni á þessu þjónustusviði í Norður-Evrópu en fyrir útgerðir í t.d. Kanada og á Grænlandi, líkt og er í þessum tilfellum, þá munar talsvert um að þurfa ekki að sigla lengra en til Íslands til að sækja þjónustuna. Þetta er góður markaður fyrir okkur til að sækja á yfir vetrarmánuðina þegar íslenskar útgerðir vilja síður vera með sín skip í slippþjónustu. Þess vegna falla erlendu verkefnin sér í lagi vel að okkar starfsemi á þessum árstíma og eru okkur mikils virði,“ segir Bjarni.

Norðmennirnir völdu Slippinn Akureyri í ljósi reynslunnar

Verkefnin við erlendu skipins segir hann að standi yfir að meðaltali í 4-6 vikur en þegar nær dregur vorinu aukast þjónustuverkefni fyrir íslensku útgerðirnar. Raunar er þó fjórða erlenda skipið að koma nú í mars til Slippsins Akureyri en það er norskt þjónustuskip í sjókvíaeldinu á Vestfjörðum.

„Þetta er tvíbytna sem við höfum áður fengið til okkar í minni viðgerðir og sú reynsla sem eigendur skipsins höfðu af okkar þjónustu þá gerði að verkum að þeir völdu að leita beint til okkar í stóru viðhaldi frekar en að sigla skipinu til Noregs. Sem er auðvitað mikil viðurkenning fyrir okkur,“ segir Bjarni en ætlunin er að skipta um tvær aðalvélar skipsins, gera við sex skrúfur og fleira. „Þetta er sömuleiðis stórt verkefni fyrir okkur og ánægjulegt fyrir okkur að þjónusta vaxandi fiskeldi á Íslandi með þessum hætti,“ segir Bjarni.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó