Gæludýr.is

Þrjár sýningar opnaðar í Listasafninu á laugardag

Þrjár sýningar opnaðar í Listasafninu á laugardag

Laugardaginn 27. janúar kl. 15 verða þrjár sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri: Alexander Steig – Steinvölur Eyjafjarðar, Guðný Kristmannsdóttir – Kveikja, og Sigurður Atli Sigurðsson – Sena. Boðið verður upp á listamannaspjall með Alexander Steig og Sigurði Atla kl. 15.45 og er stjórnandi Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins. Haldið verður listamannaspjall með Guðnýju Kristmannsdóttur laugardaginn 3. febrúar kl. 15 og boðið upp á fjölskylduleiðsögn um sýningarnar þrjár sunnudaginn 24. mars kl. 11-12.

Steinvölur Eyjafjarðar

Í reglulegum gönguferðum sínum meðfram ánni Isar í München í Þýskalandi leitar listamaðurinn Alexander Steig að steinvölum. Þar sem hann er menntaður listmálari og myndhöggvari er það frekar áhugi hans á skúlptúr en jarðfræði sem er hvatinn að þessari leit. Hann mun halda áfram að leita að steinvölum í fjörunni á Hjalteyri, en þangað hefur hann nú þegar komið tvisvar sinnum, 2008 og 2012.

Fyrir Listasafnið á Akureyri hefur hann upphugsað verkefnið eyja-fjörður-vala sem er tileinkað steinvölum „heimafjarðar“ Akureyrar – Eyjafirði. Sem myndrænum leikmunum breytir hann steinvölunum miðlægt og skoðar með því skammlífi þeirra með vísun í „pússningu“ þeirra, mismunandi stærð og möguleika á skyggingu. Listamaðurinn varpar síðan tæknilega þessu stein-vídeói og sér þá það sem virðist vera kyrrstæð hreyfimynd; steinvölurnar snúast í raun um möndul sinn á 24 tíma fresti. Steig sýnir óskynjanlega hreyfimynd þar sem tvívídd „myndarinnar“ og þrívídd uppruna hennar teygja sig yfir í fjórðu víddina, tímann.

Kveikja

„Djarfar og kröftugar pensilstrokur bera ekki vitni um hvatvísi í risastórum málverkunum, heldur birtast villtar og goðsagnakenndar skepnur upp úr löngu og meðvituðu ferli – hvort sem það er páfugl með „strap-on“ eða skordýr í trylltum hlátri,“ segir bandaríski listfræðingurinn Pavi Stave um sýningu Guðnýjar Kristmannsdóttur. „Þykk upphleðsla lita, þunnar málningastrokur og hrár grunnur á yfirborði málverksins skapa kraftmiklar en yfirvegaðar hliðstæður sem blása lífi í skepnurnar. Skapandi og hrekkjótt; gleði þeirra er smitandi. Play Me – Kveikja er titill eins verksins. Athugið að þér er ekki endilega boðið til leiks, heldur er verið að lokka þig til þess að gefa lausan tauminn og ganga inn í heim nautnalegrar gleði listamannsins.

Sena

Orðið scenography þýðir bókstaflega að skrifa í rými og var upphaflega notað til að lýsa því þegar tvívíð teikning er yfirfærð í þrívíddarteikningu; senan er teiknuð upp. Verkin á sýningunni sýna viðmiðunarpunkta hugrænnar kortlagningar og hvernig manneskjan gerir tilraun til að skipuleggja umhverfi sitt bæði út frá hugmyndafræði og líkamlegum þörfum.

Sigurður Atli Sigurðsson býr og starfar í Reykjavík. Verk hans takast á við byggingarefni samfélagsins, með því að skoða þau kerfi sem við búum okkur til og lifum eftir. Í verkum sínum vinnur Sigurður Atli með ýmiss konar prentefni, útgáfu og bókverk, auk þess að notast við grafíktækni til að vinna stórar myndaraðir. Sérþekking hans á þessu sviði hefur leitt hann til að halda sýningar, kenna og stýra sýningum víða um heim, nú nýlega á samtímalistasafninu í Tókýó og Listasafni Íslands.

Sambíó

UMMÆLI