Þrír KA menn í ævintýraferð til Gambíu

KA mennirnir Sævar Pétursson, Callum Williams og Pétur Heiðar Kristjánsson heimsóttu á dögunum Banjul, höfuðborg Gambíu, og fengu þar að kynnast knattspyrnunni og aðstæðum í landinu. Sævar, sem er framkvæmdastjóri KA, skrifaði áhugaverðan pistil um ferðina á heimasíðu KA en pistilinn má lesa í heild sinni hér að neðan.

Pistillinn af heimasíðu KA

Eftir nokkra vikna undirbúning, sprautur, bólusetning og google-vinnu þá erum við mættir á flugvöllinn í Banjul rétt fyrir miðnætti.  Á milli þess sem við reynum að ná andanum og þurrka svitann úr andlitinu reynum við að sjá í gegnum flugstöðina hvort það sé ekki örugglega einhver mættur að taka á móti okkur.  Er við komum í gegnum tollinn þá eru þar mættur rúmlega 20 manna fríður hópur þjálfara, stjórnarmanna og leikmanna að taka á móti okkur.

Þarna varð strax ljóst að við þurftum ekki að hafa neinar áhyggjur að ekki yrði hugsað vel um okkur í þessari ferð.  Við fáum að gista heima hjá forseta félagsins sem er líka ráðherra og því áttum við ekkert að láta það trufla okkur að 2 lögregluþjónar í fullum skrúða yrðu fyrir utan heimilið allan tímann.

Hawks FC eru núverandi bikarmeistara og því yrði forvitnilegt fyrir okkur að fá að upplifa eitthvað allt annað en við erum vanir hér heima.  Hawks FC reka 3 lið í meistaraflokki (1 lið í hverri deild 1,2 og 3 deild) og má segja að aðstæðurnar sem þeir vinna í séu í það minnsta framandi.  Er við mætum á fyrstu æfingu þá eru leikmenn tveggja liða mættir eða hátt í 60 leikmenn, við höfum 2 mörk, 8-9 bolta og nokkrar keilur.  Ótrúlegt en satt þá gengur þetta allt upp, menn æfa á sandvelli sem er með smá grasbala á öðrum kantinum, skólakrakkar úr hverfinu stytta sér leið yfir völlinn og jafnvel 3-4 geitur líka en það truflar menn ekki neitt.  Þarna eru menn komnir saman til þess að gera það besta úr því sem menn hafa og gera það bara nokkuð vel.

Æfingarnar ganga nokkuð vel og koma margir leikmenn okkur á óvart með tækni sinni og nokkuð ljóst að þeir hafa þróað með sér aðeins öðruvísi tækni en við erum vanir.  Leikmenn til að mynda lyfta boltanum oft upp í staðinn fyrir að taka hann niður áður en skotið er tekið á lofti (volley) því þá truflar sandurinn þig ekki í skotinu.  Mikill hraði og tækni þeirra í stutta spilinu er flott enda sáum við drengi út um allt að leika sér í fótbolta.  Þú gast ekki farið niður á strönd án þess að rekast á 10-20 stráka í fótbolta og greinilegt að áhuginn á fótbolta er mikill og eflaust einhverjir sem hugsa hann sem möguleika út úr fátæktinni sem þeir búa við.

Laugardagurinn rennur upp og klúbburinn bíður okkur á úrslitaleik í Super Nawettan sem ég get lítið útskýrt annað en ákveðna hverfiskeppni sem endar á þessum úrslitaleik sem er einn stærsti knattspyrnuleikur sem haldinn er ár hvert.  Oftast eru að koma á milli 10-15.000 manns á þennan leik og hann haldinn á þjóðarleikvangi þeirra Gambíumanna.  Skemmst er frá því að segja að við höfum aldrei lent í öðrum eins leik, þurftum að troða okkur í gegnum þvílíkann hóp af fólki til að komast inn og voru lætin orðin það mikil rétt fyrir leik að formaður gambíska knattspyrnusambandsins átti í miklu vandræðum með að komast inn.  Völlurinn tekur um 21.000 manns í stúkur en voru menn að skjóta á það að um 25.000 mann hefðu mætt á leikinn.  Lögreglan/gæslan réð lítið sem ekki neitt við áhorfendur þegar þeir voru að koma inn á völlinn.  Svakaleg stemming var á vellinum, hátt í 100 manns þurftu á læknishjálp að halda því þrengslin og hitinn í stúkunni var það mikill, sjúkrabílar keyrandi fram og til baka eftir hlaupabrautinni en alltaf hélt leikurinn samt áfram þrátt fyrir öll þessi læti í stúkunni.   Leikurinn endaði í vítaspyrnukeppni, en um leið og hún var búin þá tróðum við okkur aftur í gegnum stúkuna og út því við treystum okkur ekki til að vera yfir verðlaunaafhendingunni.

Í ferðinni var okkur bæði boðið á fund með forseta knattspyrnusambandsins og ráðherra, áhugi þeirra á íslenskri knattspyrnu var greinilegur og fannst þeim árangur landsliða okkar ótrúlegur og töluðu þeir sérstaklega um frækinn sigur okkar á Englendingum síðasta sumar.  Þeir sögðust geta lært mikið af íslenskri knattspyrnu og vonandi væri þessi heimsókn okkar bara ein af mörgum og óskuð þess að heimsóknin opnaði möguleikann á samstarfi í framtíðinni.

Leikmenn Hawks FC þurfa að leggja mikið á sig fyrir íþrótt sína.  Þeir þurfa að ferðast til og frá æfingum og með öllu má áætla að leikmenn þurfi að eyða 4-5 klst í hverja æfingu og sætta sig við að ferðast  þar sem eru jafnvel 30 leikmenn í 17 manna bíl.  Leikmenn fá smá styrk frá félaginu til þess að sinna fótbolta sem er á bilinu 2.000-5.000 kr per mánuð.  Flestir leikmenn eru á aldrinum 15-25 ára enda þurfa eldri leikmenn að láta vinnu ganga fyrir og hætta því mun fyrr en við þekkjum.

Gaman er að segja frá því að núna um helgina unnu okkar menn Meistarar meistaranna eftir vítaspyrnukeppni og því hafa menn vonandi skemmt sér vel um helgina.

Leikmenn frá Hawks FC hafa verið að koma sér fyrir víðsvegar í Evrópu og eru núna nokkrir ungir leikmenn á Ítalíu og Belgíu auk þess sem einn fyrrum leikmaður þeirra og okkar hann Ibra Jagne spilaði að sjálfsögðu hér á landi.  Það er alveg ljóst á heimsókn okkar þarna út að það væru þó nokkrir leikmenn þarna sem gætu vel staðið sig í Evrópu en vissulega verða gríðarlega viðbrigði fyrir þá að koma úr hitanum og því umhverfi sem þeir alast upp við í Gambíu yfir til Evrópu ef af yrði.  Við lærðum margt á heimsókn okkar og komum í það minnsta reynslunni ríkari heima, jákvæðari og tilbúnir í baráttuna sem framundan er hjá okkar félagi því þegar allt kemur til alls þá höfum við það alveg helvíti gott hérna heima.

UMMÆLI

Sambíó