Þrír einstaklingar voru fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri fyrr í dag eftir tvö slys sem urðu skammt frá Akureyri. Frá þessu er greint á mbl.is.
Þar er haft eftir varðstjóra í lögreglunni á Norðurlandi að í öðru slysinu hafi kerra losnað aftan úr bifreið og hafnað á annarri bifreið með þeim afleiðingum að bæði ökumaður og farþegi slösuðust og voru fluttir á sjúkrahúsið. Slysið varð skammt frá Einarsstöðum.
Hitt slysið varð skammt frá Hauganesi en þar flaug fugl fyrir vélhjól og reyndi ökumaður þess að forðast árekstur en datt af hjólinu. Hann var einnig fluttur á sjúkrahús en enginn er talinn alvarlega slasaður.