Þriðjudaginn 19. mars kl. 17-17.40 heldur Vigdís Rún Jónsdóttir, listfræðingur, Þriðjudagsfyrirlestur undir yfirskriftinni Að þoka sig í átt að „Guði“ – Um hið trúarlega í landslagsmálverkum Georgs Guðna. Efni fyrirlestrarins tengist lokaverkefni Vigdísar í BA námi í listfræði við Háskóla Íslands. Þar leitaðist hún við að svara spurningunni hvort landslagsmálverk Georgs Guðna geti staðið fyrir hinn yfirskilvitlega og ósýnilega veruleika sem guðsmynd kristindómsins átti að standa fyrir fyrr á öldum.
Vigdís Rún Jónsdóttir er menntaður listfræðingur frá Háskóla Íslands og starfar sem menningarfulltrúi hjá Eyþingi-sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Undanfarin ár hefur Vigdís fengist við ritstjórnarstörf og sýningarstjórnun af ýmsu tagi, t.a.m. sýningarstjórnun á sýningunni Bókstaflega – konkretljóð á Íslandi frá 1957 til samtímans. Sýningin var unnin út frá rannsóknum hennar í meistaranámi í listfræði á konkretljóðum í íslensku samhengi og var markmið sýningarinnar að sýna fram á þróun hugtaksins „konkretljóð“ og gildi þess í samtímanum.
Þetta er síðasti Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins en þeir munu aftur hefja göngu sína í september næstkomandi.
UMMÆLI