NTC

Þorvaldur Bjarni ósáttur við áhugaleysi fjölmiðla

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar birti athyglisverðan pistil á heimasíðu Menningarfélagsins í gær en þar sakar hann fjölmiðla um að þagga viðburð sem haldin var þann 16. október síðastliðinn í hel. Þann dag spiluðu Stórsveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands saman og frumfluttu einleikskonsert eftir Kjartan Valdemarsson.
Pistilinn má sjá í heild hér að neðan

Þann 16. október síðastliðinn fór fram mikilvægur menningarviðburður í Hofi á Akureyri. Stórsveit Reykjavíkur gekk þá til liðs við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og saman frumfluttu hljómsveitirnar nýjan einleikskonsert fyrir stórsveit og sinfóníuhljómsveit eftir píanósnillinginn Kjartan Valdemarsson. Einnig var hið sívinsæla verk Rhapsody in Blue eftir Georg Gershwin flutt á nýjan hátt, þar sem spuninn spilaði stórt hlutverk enda hljóðfæraleikarar Stórsveitarinnar vanir slíkri spilamennsku. Sigurður Flosason, einn af okkar fremstu djasstónlistarmönnum og aðalstjórnandi Stórsveitar Reykjavíkur, kom fram í fyrsta sinn sem stjórnandi sinfóníuhljómsveitar. Uppselt var á tónleikana og voru viðbrögðin þannig að um var talað. Tónleikagestir stóðu upp allir sem einn í lokin og klöppuðu listamönnunum lof í lófa svo undir tók í Hamraborginni.

Er þá ekki allt í sómanum?

Ekki alveg!

Þrátt fyrir að þarna væru komnir saman um 70 flytjendur í einu öflugasta menningarhúsi landsins sá enginn fjölmiðill sér fært að senda gagnrýnanda á þennan mikilvæga viðburð. Þar að auki sá enginn íslenskur fjölmiðill sér fært að taka viðtöl við höfuðlistamennina, sem voru engir aðrir en þeir Sigurður Flosason og Kjartan Valdemarsson, eða að fjalla um tónleikana á einn eða annan hátt. Viðburðurinn var því í raun þagaður í hel.

Á síðasta ári hélt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands 12 metnaðarfulla tónleika í Hofi og Hörpu með heimsfrægum og landsfrægum listamönnum á borð við Guðmund Pétursson, Daníel Bjarnason, Gretu Salóme, Dimmu, Steve Hackett, Hallfríði Ólafsdóttur, Värtinnä, Stefán Karl Stefánsson, Guðna Franzson, Evu Guðnýju Þórarinsdóttur, Kristjönu Arngrímsdóttur, Elmar Gilbertsson, Valgerði Guðnadóttur o.fl. Frumflutt voru 3 ný verk og 6000 manns komu til að njóta. Gagnrýnendum var boðið á alla þessa tónleika en enginn sá sér fært að mæta. Ekki eitt skipti. 12 tónleikar þagaðir í hel!

Maður hlýtur að spyrja sig hvað búi þar að baki. 

Undirritaður, sem sjálfur er frá Reykjavík, hefur verið viðburðarhaldari í áratugi og hefur á þeim tíma komið að miklum fjölda tónleika. Undantekningarlaust hafa fjölmiðlar fjallað um, gagnrýnt eða tekið viðtöl við listamennina sem að þeim tónleikum hafa komið en þeir hafa oftast verið haldnir í Reykjavík. Getur verið að það sé nóg að viðburður sé haldinn á Akureyri, frekar en í Reykjavík, til að aðstandendur menningarhluta fjölmiðlanna, t.d. Morgunblaðsins, Fréttablaðsins, Kastljóssins, Dagblaðsins, Fréttatímans o.fl. líti svo á  að hann sé ekki menningarlega mikilvægur og því ekki þess virði að fjalla um hann? Það væri mikil þröngsýni og mikill hroki í garð landsbyggðarinnar og ég trúi ekki að svo sé raunin.

 Forverar mínir í starfi hafa sagst hafa fengið þær skýringar að ekki væru til fjármunir til að senda gagnrýnanda á tónleika á Akureyri. Þá þarf nú aldeilis að vera illa komið fyrir hjá fjölmiðlinum ef ekki er hægt að verkefnaráða eina hæfa manneskju úti á landi til að fjalla um tónlistarviðburði þar. Því er ekki hægt að taka slíkar skýringar alvarlega. Þá ætti að vera auðvelt að eyrnamerkja einfaldlega hluta fjármunanna sem fara í menningarhluta þessara miðla viðburðum utan Reykjavíkur. Það ættu að vera óskráð lög að íslenskir fjölmiðlar sinni menningarstarfsemi á landsbyggðinni jafnt og í höfuðstaðnum. Ég bind vonir mínar við að aðstandendur fjölmiðlanna líti í eigin barm og athugi hvort þeir vilji virkilega starfrækja fjölmiðil sem mismunar listamönnum og unnendum lista í landinu eftir búsetu. Það væri hnignun.

 Ég kalla eftir samstarfi og samræðu við fjölmiðla landsins svo að við getum fundið farsæla lausn á þessu mikilvæga máli. Listgreinarnar eru stór atvinnuvegur sem skilar miklu fyrir þjóðarbúið. Hlúum að þeim.

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson

Tónskáld, rokkari og tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó