Framsókn

Þorsteinn Már snýr aftur til starfa hjá Samherja

Þorsteinn Már snýr aftur til starfa hjá Samherja

Stjórn Sam­herja ákvað í dag að Þor­steinn Már Bald­vins­son snúi aftur til starfa og verði for­stjóri við hlið Björg­ólfs Jóhanns­sonar, sem gegnir for­stjóra­starfi sínu áfram þar til annað verður ákveð­ið. Þorsteinn Már segir í samtali við Kaffid.is að hann sé afar glaður og þakklátur með niðurstöðu stjórnarinnar að fá hann aftur til starfa. „Þetta er ákvörðun stjórnar Samherja, að óska eftir því að ég kæmi aftur til starfa og að sjálfsögðu er ég glaður og þakklátur fyrir að það sé niðurstaðan. Það er mikið um að vera og mikið að gerast og enginn dagur eins. Ég er mjög þakklátur fyrir það að geta unnið aftur með mínu fólki að verkefnum dagsins.“

Enginn betri í takast á við núverandi aðstæður

Haft er eftir stjórn Samherja í fréttatilkynningu að Þorsteinn Már fái það verkefni að leiða aðgerðir Samherja vegna útbreiðslu Covid-19 og þessa fáheyrðu aðstæðna sem faraldurinn hefur leitt af sér. Þá segja þeir engan annan betur í stakk búinn að takast á við núverandi aðstæður en Þorstein Má. „Stjórn Samherja telur að sterk forysta með ítarlega þekkingu á mannauði, veiðum, vinnslu, sölu, flutningum og öllum öðrum rekstri samstæðunnar muni skipta sköpum í þeim aðgerðum sem ráðast þarf í. Þorsteinn Már hefur áður stýrt Samherja í gegnum íslenska bankahrunið og alþjóðlegu fjármálakreppuna með framúrskarandi árangri,“ segir Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja.

Í nóvember 2019 ákvað Þorsteinn Már að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri á meðan rannsókn á starfsemi dótturfélaga Samherja í Namibíu færi fram. Rannsóknin, sem er vel á veg komin, heyrir undir stjórn Samherja og er í höndum norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein. Auk rann­­sóknar Wik­­borg Rein á málum Sam­herja eru yfir­­­­völd í Namib­­­­íu, Angóla, Íslandi og í Nor­egi einnig að rann­saka mál tengd Sam­herj­a

Fyrsta verkefnið að fara yfir málin með starfsfólki Samherja

Þorsteinn Már segir verkefnin framundan mörg en fyrsta verkefni sé að hugsa um velferð og öryggi starfsfólks Samherja. Hann segir Covid-19 auðvitað hafa mikil áhrif á starfsemi Samherja, eins og annarra fyrirtækja, og því mikilvægt að einbeita sér bara að einum degi í einu því enginn dagur er eins.

„Til að byrja með er mitt fyrsta verkefni að fara yfir allt sem snýst að starfsfólkinu. Við viljum auðvitað tryggja öryggi og velferð starfsfólksins okkar, eins og kostur er undir þessum kringumstæðum sem eru. Við erum að vinna að því að tryggja heilsufarlegt öryggi og fjárhagslegt öryggi okkar fólks, bæði á sjó og landi,“ segir Þorsteinn í samtali við Kaffið en um þessar mundir eru starfsmenn í fiskvinnslu að vinna annan hvern dag, breytingar hafa verið gerðar varðandi aðskilnað og vinnuaðstöðum deilt upp. „Við viljum byrja á að fara yfir þetta og hlusta á fólk hvernig þeim hefur fundist þetta hafa tekist til. Það er svona fyrsta málið hjá mér. Þetta hefur allsstaðar áhrif þannig að það eru næg verkefni, það er bara að einbeita sér að deginum í dag. Ég byrja á Dalvík í fyrramálið að hitta starfsfólk, trúnaðarmenn og stjórnendur þar og síðan starfsfólk, trúnaðarmenn og stjórnendur niður í ÚA,“ segir hann. 

„Það verður að koma í ljós hvernig til tekst en við reynum áfram okkar besta“

Í fréttatilkynningu Samherja segir að um þessar mundir kappkosti Samherji að halda skipum sínum til veiða. Þá muni framleiðsla í fiskvinnsluhúsum á Dalvík og Akureyri halda áfram að því marki sem sóttvarnareglur heimila. Reynt hefur verið eftir fremsta megni að halda öllum söluleiðum opnum, bæði hér á landi og erlendis. Allt starfsfólk Samherja hefur á sinn einstaka hátt tekið þátt í miklum breytingum, óþægindum og álagi sem þessu fylgir með því staðfasta markmiði að sem minnst tjón verði fyrir samfélagið.

„Verkefnið framundan er gríðarlega erfitt og ég held að enginn sjái fyrir sér hvernig staðan verður eftir viku eða þrjár. En fyrst og fremst verða menn, bara eins og áður í Samherja, að standa saman og leysa verkefnin eftir bestu getu. Þannig að við getum veitt, framleitt og selt fisk. Það verður að koma í ljós hvernig til tekst en við reynum áfram okkar besta,“ segir Þorsteinn Már.

VG

UMMÆLI

Sambíó