Þórsstelpur tryggðu sér sæti í undanúrslitum

Þórsstelpur tryggðu sér sæti í undanúrslitum

Þór vann Stjörnuna í átta liða úrslitum VÍS-bikars kvenna í körfubolta í gærkvöldi og tryggði sér sæti í undanúrslitum keppninnar í Laugardalshöll. Þetta kemur fram á vef félagsins.

Sigur í átta liða úrslitum VÍS-bikarsins þýðir það að Þór er á leið í undanúrslit keppninnar sem fram fara í Laugardalshöllinni um miðjan mars. Grindvíkingar tryggðu sér sæti í undanúrslitum með sigri á Val í gær, en í dag mætast Njarðvík og Hamar annars vegar og Haukar og Keflavík hins vegar.  

Leikskýrslan af vef Þórs:

Stórkostlegur fyrri hálfleikur skilaði okkar konum 19 stiga forskoti sem gestirnir náðu svo reyndar að éta næstum upp til agna með góðum áhlaupum í upphafi seinni hálfleiks og aftur í upphafi fjórða leikhluta. Þegar munurinn var kominn niður í tvö stig sögðu Þórsarar hingað og ekki lengra! Þórsarar tóku frumkvæðið strax í upphafi, en gestirnir jöfnuðu. Þá kom góður kafli sem skilaði 11 stiga forskoti, en munurinn níu stig að loknum fyrsta fjórðungi. Annar leikhlutinn var frábær og forystan mest orðin 22 stig. Með frábæran stuðning frá yfir 200 manns í stúkunni var eins og ekkert gæti stöðvað okkar konur og munurinn 19 stig þegar gengið var til búningsklefa að loknum fyrri hálfleiknum.Stjörnukonur komu mjög ákveðnar til leiks í seinni hálfleiknum og byrjuðu að éta upp forskotið. Á um það bil sex mínútum var forskot Þórsara komið niður í níu stig, en smá kippur í lok þriðja leikhluta skilaði aftur 11 stiga forystu. Aftur kom áhlaup frá gestunum í upphafi fjórða leikhluta og hlaupin mikil spenna í leikinn. Þegar tæpar átta mínútur voru eftir af leiknum var forystan nær horfin, munurinn aðeins tvö stig. Þá komu tveir þristar frá Hrefnu Ottósdóttur sem kveiktu í húsinu. Smátt og smátt hertu okkar konur takið á farseðlinum í Laugardalshöllina, juku forskotið aftur upp í 13 stig og héldu haus og kláruðu leikinn af öryggi. Maddie fékk sína fjórðu villu þegar stutt var eftir af þriðja leikhluta, en það kom ekki að sök þegar upp var staðið.

Lore Devos og Hulda Ósk Bergsteinsdóttir voru frábærar í kvöld. Lore með 30 stig og 14 fráköst, Hulda Ósk með 23 stig og 72% skotnýtingu, Hrefna Ottósdóttir setti niður fimm þrista, þar af tvo á mjög mikilvægum augnablikum þegar munurinn var orðin óþægilega lítill. Maddie Sutton skoraði ekki mikið, en var öflug í öðrum þáttum, hirti 15 fráköst, svo dæmi sé tekið. Liðsheildin og baráttuandinn þó allra best eins og jafnan áður hjá þessu liði. Hópurinn allur á hrós skilið þó hér séu nokkrar teknar út úr með hátt skor og mörg fráköst.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó