Þórsarar sóttu Valsmenn heim í fallslag Dominos-deildar karla í kvöld en heimamenn höfðu betur, 98:83, eftir að hafa verið undir í hálfleik.
Þórsarar fóru illa af stað. Valsarar fengu að skjóta á körfuna nokkuð óáreittir áður en Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórsara, tók leikhlé og lét sína menn aðeins heyra það. Valur var yfir, 29:23, eftir fyrsta leikhlutann en Þórsarar voru svo mikið sterkari í þeim næsta og var þar Marques Oliver fremstur í flokki með 22 stig í fyrri hálfleik en staðan var 47:51, Þórsurum í vil, þegar flautað var til hálfleiks.
Þórsarar urðu fyrir miklu áfalli strax í upphafi síðari hálfleiks þegar Bandaríkjamaðurinn Oliver þurfti að fara af velli meiddur og náðu þeir sér aldrei almennilega á strik eftir það. Urald King gekk á lagið í liði Valsara og var duglegur að vinna fráköst gegn kanalausu liði Þórsara en hann endaði leikinn með 19 fráköst og 23 stig.
Valsarar unnu því sanngjarnan sigur en leikurinn hefði mögulega getað farið allt öðruvísi ef Þórsarar hefðu ekki misst sinn besta mann. Valur er nú með átta stig í 9. sætinu. Staða Þórsara er áfram slæm, liðið hefur nú tapað fimm í röð og sitja í næst neðsta sæti með 4 stig.
UMMÆLI