Þór vann ótrúlegan átján stiga sigur á stjörnum prýddu liði KR í 17.umferð Dominos-deildar karla í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld. Lokatölur 83-65 og fyrsta tap KR í langan tíma staðreynd.
Þórsarar mættu mjög ákveðnir til leiks og höfðu undirtökin í leiknum frá upphafi til enda. Staðan í leikhléi 45-37 fyrir heimamönnum.
Í síðari hálfleik héldu Þórsarar áfram að auka forystuna og náðu mest 29 stiga forskoti. Hreint ótrúleg frammistaða Þórsara. Lokatölur urðu 83-65 fyrir Þór.
George Beamon var stigahæstur í liði Þórs með nítján stig en besti maður vallarins var 216 sentimetra landsliðsmiðherjinn Tryggvi Snær Hlinason. Þessi magnaði leikmaður setti niður sextán stig og tók tólf fráköst. Hann klikkaði aðeins einu skoti í leiknum.
Stigaskor Þórs: George Beamon 19, Tryggvi Snær Hlinason 16/12 fráköst, Ingvi Rafn Ingvarsson 15/6 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 12, Darrel Lewis 10, Ragnar Helgi Friðriksson 7, Sindri Davíðsson 4.
Stigaskor KR: Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 12, Philip Alawoya 12, Jón Arnór Stefánsson 10, Darri Hilmarsson 10, Sigurður Þorvaldsson 10, Arnór Hermannsson 7, Snorri Hrafnkelsson 2, Pavel Ermolinskij 2.
UMMÆLI