Þórsarar gerðu góða ferð í Stykkishólm í kvöld þar sem þeir unnu öruggan tíu stiga sigur á Snæfelli í Dominos-deild karla í körfubolta.
Snæfell eru langneðstir í deildinni og enn stigalausir þegar mótið er hálfnað. Verkefni kvöldsins var því hálfgert formsatriði fyrir Þórsara og má segja að þeir hafi leyst það vel.
Að loknum fyrsta leikhluta voru Þórsarar strax komnir tíu stigum yfir og þeir héldu áfram að bæta í forystuna eftir því sem leið á leikinn. Fyrir fjórða og síðasta leikhlutann höfðu Þórsarar nítján stiga forskot, 65-84.
Heimamenn sýndu lit í síðasta leikhlutanum en það var of lítið of seint og Þórsarar tóku stigin tvö með sér heim til Akureyrar. Lokatölur 92-102 fyrir Þór.
Úrslit kvöldsins þýða að Þórsarar eru nú í fimmta sæti deildarinnar en þetta var síðasta umferðin á þessu ári og er deildin nú hálfnað.
Stigaskor Þórs: George Beamon 32, Darrel Lewis 17/10 fráköst , Danero Thomas 14, Tryggvi Snær Hlinason 13, Ragnar Helgi Friðriksson 10, Ingvi Rafn Ingvarsson 9, Þröstur Leó Jóhannsson 7.
Stigaskor Snæfells: Sefton Barret 28/16 fráköst, Andree Michaelsson 19, Sveinn Arnar Davíðsson 9, Þorbergur Sæþórsson 9, Árni Elmar Hrafnsson 9, Snjólfur Björnsson 7, Viktor Alexandersson 4, Jón Páll Gunnarsson 4, Maciej Klimaszewski 2.
UMMÆLI