Gæludýr.is

Þorrinn: Af hverju blótum við og er Bóndadagur norðlenskur?Ljósmynd: Sveitarfélagið Ölfus

Þorrinn: Af hverju blótum við og er Bóndadagur norðlenskur?

Nú fer að líða að Þorra. Konur og karlar sem eiga í ástarsamböndum við karla eru farin að huga að bóndadagsgjöfum og margir farnir að hlakka til Þorrablóts sveitarinnar, reiðklúbbsins eða íþróttafélagsins. Þetta er því góður tími til þess að líta aðeins á söguna og velta fyrir okkur hvaðan þessar ýmsu hefðir í kringum Þorrann koma.

Orðið Þorri vísar til fjórða mánaðar vetrar á gamla norræna tímatalinu. Fyrsti dagur Þorra hefur lengi verið kallaður Bóndadagur og fellur þetta árið á 26. janúar. Þorri stendur svo þar til seint í febrúar þar sem Konudagur (25. febrúar þetta árið) markar upphaf Góu, fimmta mánaðar vetrar.

Ekki eins forn og marga grunar

Við hugsum okkur oft að Bóndadagur, Þorrablót og önnur hátíðlegheit í kringum Þorrann séu ævafornar hefðir sem stundaðar hafa verið hér á landi um aldaraðir. Sannleikurinn er hins vegar sá að Þorrablót og í raun flestar „fornar“ og þjóðlegar hefðir víða um Evrópu voru endurlífgaðar og sumar þeirra hreinlega skáldaðar upp, um miðja 19. öld. Að endurvekja eða búa til slíkar hefðir var hluti af ferli sem á ensku er kallað „nation building.“ Þetta ferli fól í sér að skapa eða vekja athygli á hefðum, hetjum og sögum sem mynduðu meðal fólks þjóðarímynd og stolt. Allt var þetta hluti af hugmyndafræðilegri stefnu sem hófst í Evrópu, sérstaklega Þýskalandi og Frakklandi, seint á 18. öld og kallast rómantísk þjóðernishyggja.

Meðal Íslendinga var þessi rómantíska þjóðernishyggja vinsælust hjá hópi íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn, en eins og þekkt er spiluðu þeir stóran þátt í sjálfstæðisbaráttu íslendinga og var þessi hugmyndafræði stór hluti af hvatanum. Endurvakning Þorrablóta virðist rekja uppruna sinn til þessara stúdenta, en á seinni áratugum 19. aldar héldu íslenskir stúdentar Þorrablót í Kaupmannahöfn. Minnst er þó á Þorrablót í bæði Orkneyinga sögu (12. – 13. öld) og Flateyjarbók (14. öld) en bendir fátt til þess að þessi Þorrablót hafi líkst þeim sem við höldum í dag og eru lýsingar á þeim svo ónákvæmar að ekki er hægt að rekja neinar einstaka hefðir til þeirra.

Nútíma Þorrablót

Einhver Þorrablót áttu sér stað seint á 19. öld, bæði hér á landi og í Kaupmannahöfn, en Þorrablót í því formi sem við höldum þau í dag, með meðfylgjandi uppstillingu á Þorramat, reka uppruna sinn til veitngastaðs sem hét „Naustið.“ Þar var haldið Þorrablót árið 1958 og eftir það festu Þorrablót sér almennilegan sess sem hluti af íslenskri menningu.

Er Bóndadagur norðlenskur?

Margir lesendur hafa eflaust lesið, eða í það minnsta gluggað í, þjóðsögur Jóns Árnasonar. Vinna Jóns við að safna þjóðsögum var einmitt hluti af rómantísku þjóðernishyggju stefnunni, rétt eins og Þorrablót stúdenta og sjálfstæðisbarátta þeirra. Það sem færri vita eða muna er að þar er að finna það sem líklega er elsta dæmi á prenti um að fyrsti dagur Þorra sé kallaður Bóndadagur. Þar segir að „Sumstaðar á Norðurlandi“ sé fyrsti dagur Þorra enn kallaður Bóndadagur. Svo virðist sem að á hans tímum hafi orðið ekki verið notað annars staðar en á Norðurlandi, en óljóst er hvort að tilvísunin í að dagurinn sé „enn“ kallaður það vísi til þess að eitt sinn hafi heitið verið notað víðar eða einfaldlega að heitið eigi sér langa sögu á Norðurlandi.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó