Þór/KA fékk Íslandsmeistara Stjörnunnar í heimsókn í Bogann í dag í A-deild Lengjubikars kvenna og úr varð hörkuleikur. Lokatölur 2-2.
Landsliðskonan Guðmunda Brynja Óladóttir kom Stjörnunni yfir snemma leiks eftir frábært einstaklingsframtak. Þór/KA var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik og Zaneta Wyne jafnaði metin á 18.mínútu. Þrátt fyrir töluverða yfirburði tókst Þór/KA ekki að skora fleiri mörk fyrir leikhlé og staðan í hálfleik því jöfn.
Stjarnan hóf síðari hálfleikinn af krafti og Guðmunda bætti við öðru marki sínu eftir laglegan undirbúning Katrínar Ásbjörnsdóttur strax á 51.mínútu. Stjarnan var sterkari aðilinn stærstan hluta síðari hálfleiks en heimakonur gáfust ekki upp. Það skilaði sér í jöfnunarmarki í uppbótartíma þegar Rakel Sjöfn Stefánsdóttir afgreiddi boltann í netið eftir frábæra sendingu Söndru Mayor.
Jafntefli líklega sanngjörn niðurstaða í kaflaskiptum leik en Þór/KA hefur nú fjögur stig eftir fjóra leiki. Stjarnan hefur einu stigi meira.
Þór/KA 2-2 Stjarnan
0-1 Guðmunda Brynja Óladóttir (´10)
1-1 Zaneta Wyne (´18)
1-2 Guðmunda Brynja Óladóttir (´51)
2-2 Rakel Sjöfn Stefánsdóttir (´90)
UMMÆLI