Þór/KA með fullt hús stiga – Hamrarnir unnu á Höfn

Þór/KA trónir á toppi Pepsi-deildarinnar með fullt hús stiga

Þór/KA gerði afar góða ferð í Vesturbæ Reykjavíkur í dag þegar liðið heimsótti KR í fimmtu umferð Pepsi-deildar kvenna í fótbolta þar sem Þór/KA gerði sér lítið fyrir og vann sinn fimmta leik í röð.

KR konur spiluðu mjög aftarlega og tók langan tíma fyrir Þór/KA að finna leið framhjá þéttum varnarmúr heimakvenna en eftir rúmlega klukkutíma leik tókst það þegar hornspyrna Önnu Rakelar Pétursdóttur endaði í netinu. Mögulega hafði boltinn viðkomu í einhverjum leikmanni áður en hann fór inn en það var mjög erfitt að sjá. Markið skráð sem sjálfsmark hjá markverði KR, Hrafnhildi Agnarsdóttur.

Sandra Stephany Mayor gerði svo endanlega út um leikinn tíu mínútum fyrir leikslok þegar hún afgreiddi sendingu Söndru Maríu Jessen og lokatölur 0-2 fyrir Þór/KA.

KR 0 – 2 Þór/KA
0-1 Hrafnhildur Agnarsdóttir (’62, sjálfsmark)
0-2 Sandra Mayor (’81)


Á sama tíma unnu Hamrarnir 1-2 sigur á Sindra þegar liðin mættust á Höfn í Hornafirði í 1.deild kvenna og eru Hamrakonur því enn taplausar eftir tvær umferðir, hafa fjögur stig.

Andrea Dögg Kjartansdóttir tryggði Hamrakonum sigurinn þegar hún skoraði um stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Sindri 1-2 Hamrarnir

0-1 Margrét Selma Steingrímsdóttir (´9)
1-1 Chestley Strother (´58)
1-2 Andrea Dögg Kjartansdóttir (´75)

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó