Þór/KA eru Íslandsmeistarar 2017

Mynd: Þórir Tryggva

Lið Þór/KA tryggði sér í dag Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu eftir sigur á FH í síðasta leik Pepsi deildarinnar á þessu tímabili. Áhorfendum var boðið frítt á leikinn á Þórsvelli í dag og fyrirtæki á Akureyri hleyptu fólki fyrr heim úr vinnu til að komast á leikinn enda einn stærsti leikur seinni tíma hjá Akureyrarliði í fótbolta.

Þór/KA þurfti nauðsynlega á sigri að halda en Breiðablik gat komist upp fyrir þær með sigri ef þær myndu misstíga sig í dag. Þór/KA hafa verið á toppi deildarinnar frá 1. umferð sumarsins.

Það var frábær stemning á vellinum, Þórsvöllur fylltist og þurfti hleypa fólki í grasbrekkurnar sunnan við völlinn.

Þór/KA stelpur sóttu af krafti strax frá upphafi og voru mun sterkari aðilinn. Eftir rúman hálftíma leik var þó enn markalaust þegar bárust fréttir af því að Breiðablik væri komið yfir gegn Grindavík. Staðan í hálfleik á Þórsvelli var 0-0 á meðan Breiðablik var 1-0 yfir á Kópavogsvelli. Eins og staðan var þá voru Breiðablik að fara ræna titlinum.

Seinni hálfleikur byrjaði rólega og það var lítið að gerast þangað til á 74. mínútu þegar Sandra María Jessen fyrirliði Þór/KA skoraði flott mark eftir fyrirgjöf frá Önnu Rakel Pétursdóttir. Breiðablik voru komnar í 3-0 á þessum tímapunkti og því ekkert annað í stöðunni nema sigur fyrir Þór/KA.

Besti leikmaður Pepsi deildarinnar í sumar, Sandra Stephany Mayor kom Þór/KA í 2-0 eftir frábæran sprett. FH-ingar sóttu meira eftir þetta mark en náðu ekki að minnka muninn.

Þór/KA er því Íslandsmeistari 2017 eftir frábært sumar. Magnaður árangur hjá Donna á sínu fyrsta tímabili með liðið. 2. flokkur liðsins varð bæði Íslands- og bikarmeistari í sínum flokki.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó