Pepsi-deild kvenna lauk í dag með heilli umferð og stóðu Stjörnukonur uppi sem Íslandsmeistarar þetta árið. Þór/KA lauk keppni í 4.sæti deildarinnar eftir 3-3 jafntefli gegn ÍBV í Vestmannaeyjum.
Anna Rakel Pétursdóttir kom Þór/KA yfir eftir 22 mínútur og skömmu síðar bætti Sandra Stephany Mayor við öðru marki. Zaneta Wyne kom Þór/KA svo í 3-0 í upphafi síðari hálfleiks og útlitið gott fyrir Akureyrarliðið.
Eyjakonur voru hinsvegar ekki tilbúnar að gefast upp og hlóðu í magnaða endurkomu á lokamínútunum. Það skilaði þeim þrem mörkum og endaði leikurinn því 3-3.
Þetta er annað árið í röð sem Þór/KA endar í 4.sæti Pepsi deildarinnar en það er mögnuð staðreynd að liðið hefur endað í einhverju af efstu fjórum sætunum á hverju einasta tímabili síðan árið 2008 og er eina lið landsins sem getur státað af álíka stöðugleika í kvennaboltanum.
Það verður spennandi að sjá hvort stelpunum takist að fylgja þessum stöðugleika á næsta ári og ekki væri úr vegi að fagna tíunda árinu með því að gera atlögu að Íslandsmeistaratitlinum sem liðið vann á glæsilegan hátt árið 2012.
UMMÆLI