Þórsarar hafa fengið markvörðinn Daða Frey Arnarsson á láni frá FH út leiktíðina og mun hann leika með liðinu í Lengjudeildinni í sumar. Aron Birkir Stefánsson sem hefur verið aðalmarkvörður Þórsara undanfarin ár er meiddur og leikur ekki með liðinu næstu mánuði. Þá meiddist varamarkvörðurinn Auðunn Ingi Valtýsson einnig í síðustu viku en verður ekki lengi frá, en hann leikur einnig með 2. flokk félagsins.
Daði er tuttugu og tveggja ára gamall og hann á 73 meistaraflokks leiki að baki og þar af 16 í efstu deild með FH. Aðrir leikir Daða eru með BÍ/Bolungarvík og Vestra.
Þá á Daði Freyr 15 landsleiki að baki með U16, U17, U19 og U21 landsliðunum.
Þórsarar hefja leik í Lengjudeildinni á morgun þegar liðið heimsækir Gróttu sem féllu úr Pepsi Max deildinni síðasta sumar.
UMMÆLI