Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ 23. júní var Þór úrskurðað til að greiða kr. 50.000 í sekt vegna veðmálaauglýsinga. Tveir leikmenn og þjálfari Þórs mættu með derhúfur merktar veðmálafyrirtækinu CoolBet í viðtal eftir sigur gegn Grindavík í síðustu viku.
Sjá einnig: Þór harmar derhúfu atvikið
Í dómi KSÍ segir meðal annars:
,,Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ vill að lokum minna á nauðsyn þess að grein 1.4 í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót verði í heiðri höfð, en þar segir: Félög, iðkendur, forystumenn og aðrir skulu jafnan sýna drengskap og forðast hvaðeina sem rýrt gæti álit almennings á íþróttinni og koma fram af hollustu, heiðarleika og sönnum íþróttaanda. Þeir sem taka þátt í starfi knattspyrnuhreyfingarinnar skulu leitast við að gera ekkert það sem til vanvirðu má telja fyrir íþróttina.“
Stjórn knattspyrnudeildar Þórs sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem að sagt var að um mistök hafi verið að ræða og að félagið harmaði atvikið.
UMMÆLI