Þór/KA og Valur mættust í A-deild Lengjubikars kvenna í dag. Þetta var fyrsti leikur Þór/KA í mótinu en liðið varð eins og flestum er kunnugt Íslandsmeistari í fyrrasumar eftir frábært tímabil í Pepsi-deild kvenna.
Valskonur enduðu í 3. sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra og því um hörkuleik að ræða.
Eina mark leiksins kom á 61. mínútu en þá skoraði Ásdís Karen Halldórsdóttir fyrir Val eftir frábært einstaklingsframtak í vítateig Þórs/KA.
Eftir markið sóttu Þór/KA stúlkur hart að marki vals og komst Lillý Rut Hlynsdóttir næst því að jafna leikinn en hún átti þá skalla rétt framhjá marki Vals eftir fyrirgjöf frá Önnu Rakeli Pétursdóttur. Lokatölur í Boganum í dag 0-1 fyrir Val.
Eins og venjan er í Lengjubikarnum fá ungir leikmenn tækifæri og í liði Þór/KA komu inná tvær ungar stúlkur fæddar árið 2001, þær Hulda Karen Ingvarsdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir.
Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Breiðabliki 11. mars í Boganum.
UMMÆLI