Stjórn Þórs/KA hefur gert samninga við tvær ungar knattspyrnukonur og semja þær báðar til eins árs. Þetta eru þær Kolfinna Eik Elínardóttir (2007) og Sonja Björg Sigurðardóttir (2006).
Á vef Þór/KA stendur eftirfarandi um þær Sonju og Kolfinnu:
Sonja Björg Sigurðardóttir (2006) spilar í fremstu víglínu og á að baki samtals 56 leiki í meistaraflokki. Þar af eru 18 með Þór/KA, en Sonja spilaði einnig 11 leiki fyrir Hamrana 2021 og hefur tvívegis spilað með Völsungi á lánssamningi frá Þór/KA, sumarið 2022 og síðari hluta sumars 2024. Hún hefur komið við sögu í níu leikjum með Þór/KA í efstu deild og á einnig að baki 30 leiki í 2. deild þar sem hún hefur skorað 14 mörk, en samtals 56 leiki og 20 mörk í deildarkeppni, bikarkeppni og Lengjubikar með Þór/KA, Hömrunum og Völsungi. Þá á hún einnig þrjá leiki með U16 landsliðinu.
Fyrsta meistaraflokksleikinn spilaði hún með Hömrunum í C-deild Lengjubikarsins í mars 2021, en fyrsta leikinn með Þór/KA í Lengjubikar í febrúar 2022. Fyrsta innkoma hennar í leik í Bestu deildinni var í 2-1 sigri á Þrótti í Boganum 2. maí.
Kolfinna Eik Elínardóttir (2007) á að baki tíu leiki í meistaraflokki, þar af sex leiki í Bestu deildinni. Hún hefur spilað samtals átta landsleiki með U15 og U16 landsliðum Íslands. Kolfinna spilar í vörninni og kom í fyrsta skipti við sögu í leik í Bestu deildinni í maí 2023.
Báðar spiluðu einnig leiki með 2. flokki félagsins í sumar sem varð bæði Íslands- og bikarmeistari. Kolfinna Eik spilaði átta leiki og Sonja Björg níu leiki og skoraði í þeim leikjum tíu mörk.
UMMÆLI