Krónan gekk nýlega frá vali á þrettán samfélagsverkefnum víða um land sem Krónan styrkir á þessu ári til góðra verka. Á Norðurlandi hlutu tvö verkefni samfélagsstyrk; annars vegar Þór/KA á Akureyri fyrir sérstakt geðræktarverkefni, sem nýlega var ýtt úr vör, og hins vegar Knattspyrnufélag Fjallabyggðar til að fjárfesta í pannavöllum.
Geðræktarverkefni Þórs/KA
Að geðræktarverkefni Þórs/KA, sem leikur í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, stendur sérstakt teymi þjálfara og fulltrúa unglingaráðs Þór/KA ásamt sálfræðingi, geðlækni, keppendum og foreldrum og er meginverkefni teymisins að standa vörð um andlega líðan keppenda og efla þátttöku ungra kvenna í knattspyrnuíþróttinni. Iðkendur í keppnisíþróttum gera sífellt meiri kröfur til þeirra sjálfra og er knattspyrnan þar engin undantekning. Reynslan sýnir að mikið álag getur framkallað svokallaðan frammistöðukvíða og virðist hann sífellt algengari. Er helsta verkefnið því að vinna að forvörnum með stúlkunum í knattspyrnufélaginu, sem þekktar eru fyrir að leggja gríðarmikið á sig á æfingum ekki síður en í keppnum og leggja allt í sölurnar til að standa jafnfætis þeim bestu á landinu í baráttu um titla og sæti í landsliði Íslands.
Pannavellir FK
Í Fjallabyggð hlaut Barna- og unglingaráð KF, sem hefur yfirumsjón með starfi yngri flokka félagsins, styrk til að fjárfesta í pannavöllum. Um er að ræða litla átthyrnda fótboltavelli þar sem hægt er að spila hraða og skemmtilega fótboltaleiki, einn á móti einum. Pannavellir eru til þess fallnir að auka áhuga barna á hollri hreyfingu, meðal annars vegna hentugrar stærðar vallarins.
Samfélagsstyrkir Krónunnar 2024
Krónan valdi nýlega þrettán verkefni víða um land sem hljóta samfélagsstyrk Krónunnar í ár en á hverju hausti eru valin verkefni úr fjölda umsókna, sem hljóta styrkinn. Langflest þeirra eru staðsett utan höfuðborgarsvæðisins, en eiga það öll sameiginlegt að stuðla að jákvæðum áhrifum á uppbyggingu í nærsamfélögunum á þeim þéttbýlisstöðum þar sem Krónan er til staðar. Verkefnin eiga það einnig sameiginlegt að ýta undir umhverfisvitund eða aukna lýðheilsu í formi áherslu á hollustu og/eða hreyfingu þar sem sjónum er einkum beint að ungu kynslóðinni.
Mynd
Dagný Finnsdóttir hjá KF Fjallabyggð og Dóra Sif Sigtryggsdóttir hjá Þór/KA veittu nýlega styrkjunum viðtöku, en með þeim á myndinni eru Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, verkefnastjóri sjálfbærnimála hjá Krónunni og Bjarki Kristjánsson, verslunarstjóri á Akureyri.
UMMÆLI