Í gær, 1. apríl, var þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi opnuð formlega að Aðalstræti 14 á Akureyri, í húsinu sem kallað hefur verið Gamli spítali. Þessu greindi Akureyrarbær frá í gær á heimasíðu sinni.
Eins og þekkt er getur ofbeldi í hinum ýmsum myndum haft alvarlegar afleiðingar til lengri og skemmri tíma fyrir þá sem fyrir því verða. Alþjóðaheilbrigðistofnunin hefur tilgreint margvíslegar afleiðingar fyrir brotaþola s.s. líkamlegir verkir, aukin tíðni veikinda, svefnerfiðleikar, áfallastreituröskun, andlegir sjúkdómar, aukin tíðni sjálfsvígstilrauna og sjálfsvíga auk áfengis- og fíkniefnamisnotkunar.
Verkefnið er að hluta til byggt á bandarískri fyrirmynd þar sem meginmarkmiðið er að brotaþolar fái, á einum stað þá þjónustu sem á þarf að halda í kjölfar ofbeldis. Um er að ræða samhæfða þjónustu og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi, s.s. kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi. Veitt er fræðsla og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, auk námskeiða um birtingamyndir ofbeldis og afleiðingar þess, auk þess að gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið.
Frá því á haustmánuðum 2017 hefur embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra unnið að því að koma á fót þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi. Þann 7. desember 2017 var fyrsti formlegi fundurinn hjá lögreglustjóra með Akureyrarbæ, Háskólanum á Akureyri og Aflinu þar sem verkefnið var rætt af fullri alvöru. Fljótlega komu um borð Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Sjúkrahúsið á Akureyri. Þá komu landssamtökin Samtök um Kvennaathvarf, Kvennaráðgjöfin og Mannréttindaskrifstofa Íslands sem standa að rekstri Bjarkarhlíðar einnig að verkefninu.
Þann 2. mars 2018 skrifuðu allir samningsaðilar undir viljayfirlýsingu um stofnun og rekstur þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis og var sú viljayfirlýsing send á nokkra ráðherra og í kjölfarið tóku dómsmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra verkefnið að sér.
Félags- og barnamálaráðherra lagði fram þingsályktun um áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þeirra. Í þessari áætlun var þjónustumiðstöðin staðfest en með hálfu stöðugildi og ákvað dómsmálaráðherra þá að koma til móts við óskir Norðlendinga og styrkja verkefnið að hálfu á móti félags- og barnamálaráðherra.
Akureyrarbær leggur til húsnæðið og verður þjónustumiðstöðin í sama húsnæði og Aflið hefur starfsemi sína.