Þjónar verða kokkar og kokkar verða þjónar á Múlabergi

Þjónar verða kokkar og kokkar verða þjónar á Múlabergi

Í byrjun febrúar ætlar veitingastaðurinn Múlaberg á Akureyri að eiga allsherjar hlutverkaskiptingu, þannig að þjónarnir sjá um að elda matinn og kokkarnir sjá um að framreiða mat og drykk, í eina kvöldstund. Ekki verður um nein hjálpardekk að ræða því að allir matreiðslumenn verða frammi í salnum og allir framreiðslumenn inni í eldhúsi. 

„Hugmyndin að þessum einstaka viðburði byrjaði sem grín eftir töluvert krefjandi vakt sem við ákváðum svo bara að kýla á – svona fyrst að starfsmennirnir voru hreinlega bara til í þetta. Fylgir ekki öllu gríni annars einhver alvara?” segir Snæbjörn Bergmann, einn eigenda Múlabergs og veitingastjóri.

„Vinalegur rígur milli kokka og þjóna er rótgróinn hluti af bransanum en við erum búin að velta því fyrir okkur hvort að einhver hafi raunverulega látið á það reyna að skipta um hlutverk? Ég held ekki – og þetta er eiginlega jafn scary og þetta er spennandi núna þegar þetta er ekki lengur bara mont út í loftið á milli deilda eins og hefur verið í svona – hvað ef? Núna þurfa bara allir allt í einu að standa við stóru orðin – það er alveg stemmning.”

Fylgjast með kokkunum í laumi 

Ingibjörg Bergmann, annar eigandi og veitingastjóri Múlabergs segir að viðburður veitingastaðarins hafi vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum undanfarið – enda líklega í fyrsta sinn hér á landi sem þetta hefur verið gert. 

Eigendur Múlabergs eru allir faglærðir sveinar og meistarar, í framreiðslu og matreiðslu ásamt því að á staðnum vinna margir faglærðir matreiðslu- og framreiðslumenn sem og margir reynsluboltar sem hafa unnið í faginu lengi. Enginn er því ókunnugur starfi hvors annars, en þó hefur enginn skipt alveg um hlutverk í heila kvöldstund – enda er það ekki vaninn almennt neinstaðar.
Ekkert á veitingastaðnum kemur til með að breytast nema þessi skipti milli starfsmanna í eldhúsi og sal – áfram verður sami matseðill og drykkjar-vínseðill eins og aðra daga.

„Það kom alveg upp umræða um hvort það væri ekki örugglega bara einn seðill í gangi eða einhverjar takmarkanir á matseðli og drykkjarseðli – en þá væri þetta ekki sama áskorunin. Við þjónarnir tökum þetta alla leið og erum þegar byrjuð að undirbúa okkur, munum líklega hanga lengur og fylgjast extra mikið með inni í eldhúsi næstu daga og reyna að læra sem mest í laumi,” segir Ingibjörg.

Kokteilarnir og vínið verði erfiðast 

Pressan er þó ekki síðri á matreiðslumönnunum sem nú þurfa að tala við gestina beint sem þeir eru ekki eins vanir, ásamt því að gera kokteila, hella vínum, framreiða matinn (sem þó kannski reynist þeim auðveldast af þessu öllu saman) og að bregðast við gagnrýni eða lofi kúnnana beint.

Við erum nokkuð brattir, eins og kokkum er sérstaklega lagið held ég, sama hversu svart þetta lítur út fyrir að vera. Í þessu tilviki er þetta svona já, kannski töluvert grárra en venjulega. Ég held að barinn og vínið verði erfiðast, en við finnum út þessu einhvern veginn – fylgjum uppskriftum og reynum að brosa á meðan. Það verður kannski erfiðasti parturinn, það er allt öðruvísi inni í eldhúsi að geta græjað verkefnin án þess að þurfa að pæla í því hvort maður sé brosandi eða hvernig flotið lítur út fyrir gestinum. Við erum samt lukkulega allir voðalega sætir,” segir Hlynur Halldórsson, annar eigandi Múlabergs og yfirkokkur á Múlabergi. 

Ástríða fyrir faginu er lykilatriði 

Ljóst er að þetta verður einstök upplifun fyrir gesti sem sækja þennan viðburð og ekki ljóst hvort viðburðurinn verður endurtekinn – enda margt sem getur farið úrskeiðis en á sama tíma er fólkið kappsamt og til í áskorunina. ,,Það er svo ótrúlegt teymi á Múlabergi sem er bæði kappsamt en á sama tíma ótrúlega stuðningsríkt og góðir vinir. Allir sem taka þátt eru í þessu að góðum ásetningi og hafa gríðarlega ástríðu fyrir veitingafaginu – þannig varð þessi viðburður til. Það er hollt fyrir alla að stíga í spor hvers annars og kynnast þjónustunni við gestinn frá A-Ö. Það skemmir ekki fyrir hvað þetta verður ótrúlega skemmtilegt og ennþá skemmtilegri skálin þegar þetta kvöld klárast og allir geta andað aðeins léttar,” bætir Ingibjörg við að lokum. 

Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna hér:
https://www.facebook.com/events/902228861216051?ref=newsfeed

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó