NTC

Þjóðfélag á villigötum

Sigurður Guðmundsson skrifar

Ég veit ekki alveg með ykkur en ég hef aldrei séð norðurljósin með berum augum eins og þau líta út á öllum þessum myndum sem ljósmyndarar landsins eru alltaf að dreifa. Meðvirknin er slík hjá þjóðinni að við erum virkilega farin að trúa að þau líti svona út. Vissulega fallegar myndir. Svona eins og máluð kona að kvöldi sem er ófríð að morgni.

Þetta á við alveg ótrúlega margt á Íslandi. Okkur er talin trú um að allt sem við gerum sé á heimsmælikvarða. Við eigum t.d. besta gjaldmiðil í veröldinni. Íslenska krónan er slíkum gæðum gædd að við þurfum að verja hana með orðum einsog verðtryggingu. Hafið þið einhverntíman þurft að skýra út fyrir útlending að lánin ykkar hækki þegar verðbólga hækkar? Menn hrista hausinn og geta ekki með nokkru móti skilið um hvað við erum að tala. Orðið verðtrygging er bara til á íslensku. Segir reyndar ýmislegt.

Menntakerfi okkar er í molum. Samanburður við hin sívinsælu norðurlönd setur okkur á botninn og langt í næsta mann. Samt eyðum við hlutfallslega mestu í málaflokkinn. Misstum af gullnu tækifæri 2008-2009 að umbylta þessum málaflokk einsog Finnar gerðu á sínum tíma þegar þeir lentu í sinni efnahagskrísu. Þar er besta námskerfi á vesturlöndum í dag ásamt Eistlandi. Samt fullyrðum við þegar við erum búin að borða aðeins af hákarli og slurpa aðeins á brennivíni að við getum lesið gömul skinnhandrit einsog morgunblaðið. Kjaftæði.

Það er reyndar stórmerkilegt að skoða hvernig á þessu getur staðið. Ég vil meina að mikið af þessu liggur í hvað við erum að kenna. Öllum skal troðið í bóklestur og verknám er eitthvað sem hefur setið á hakanum áratugum saman. Við lítum stundum á verknám sem annars flokks en það er afar mikill misskilningur. Sjáum fyrir okkur óhreinann bifvélavirkja eða járnsmið. En þetta er svo miklu fjölbreyttara en það. Þar eru sóknarfæri okkar og eina von. Þegar við skoðum tölur og berum saman norðurlöndin og eystrasaltsríkin bera þessi lönd höfuð og herðar yfir okkur í iðnaði. Á einföldu máli þýðir þetta að við framleiðum landa minnst. Hér verður minna til heldur en annarsstaðar af einhverri söluvöru sem hægt er að flytja milli staða. Við horfum til himins og bendum á norðurljósin. Þau eru til sölu en eru hvik og svikul og bundin árstíðum. Þau voru eitt sinn seld aldraðri ekkju í Skotlandi til eignar af Einari Benedikssyni en það er önnur saga.

Hvernig við tengjum þetta við almennt nám myndi ég áætla að væri auðvelt. Með því að gera námið fjölbreyttara verður það um leið áhugaverðara og hvetur nemendur til betri árangurs á öllum sviðum. Allir finna sér eitthvað við hæfi og ánægja nemenda mun stóraukast í stað þess að óttast framtíðina vegna eigin vangetu í mörgum bóklegum fögum. Við erum fjölbreytt en við höldum í fábreyttnina einsog krónuna. Hættum að greiða niður skuldir ríkisins á þessum hraða einsog nú. Lengjum lán og setjum mismuninn í menntakerfið okkar og snúum þessum við. Framtíð og hamingja landsins er í húfi.

Við eigum mörg frábær iðnfyrirtæki líkt og Marel og Össur. En okkur vantar fleiri. Minnkum aðeins áhersluna á norðurljósin og förum að búa eitthvað til.

Njótið helgarinnar.

Greinin er aðsend – skoðanir pistlahöfundar þurfa ekki að endurspegla skoðanir ritstjórnar Kaffisins.

Sambíó

UMMÆLI