Gæludýr.is

,,Þetta var hræðileg lífsreynsla“

Hrafnhildur Jóna Hjartardóttir.

Hrafnhildur Jóna Hjartardóttir, 22 ára stelpa frá Siglufirði, var stödd við Römbluna í Barcelona síðastliðinn fimmtudag þegar hryðjuverkaárásirnar áttu sér stað. 13 létust í árásinni og yfir 100 særðust alvarlega þegar maður keyrði á hvítum sendibíl inn í mannfjöldann.

Hrafnhildur var nýkominn inn á La Boqueria þegar trukkurinn keyrði í gegnum La Rambla. Hún þakkar fyrir að hafa ekki séð þetta gerast með berum augum en hún var það nálægt að hún heyrði skelfileg öskur og allt í einu fór fólk að hlaupa í áttina til hennar. Það var þá sem hún tók sjálf á rás og hljóp fyrir lífi sínu.

,,Það fyrsta sem ég gerði eins og allir sem voru viðstaddir þarna var að forða mér og það fyrsta sem ég hugsaði, eins dramatískt og það hljómar, var að ég væri að fara deyja,“ segir Hrafnhildur um sín fyrstu viðbrögð.

Getur ekki hætt að hugsa um hvað gerðist
Hrafnhildur segist enn þá vera að jafna sig eftir atburðinn og geti ekki hætt að hugsa um hvað gerðist. Hún slapp naumlega þegar hún hljóp í burtu ásamt öðrum og leitaði síðan skjóls í lítilli fatabúð ásamt sex öðrum, þangað til að hún taldi það öruggt að fara aftur út.

,,Ég var á röngum stað, á röngum tíma. Þótt að ég hafi ekki séð trukkinn sjálfan þá var þetta hræðileg lífsreynsla. Ég er þannig séð heppin að hafa ekki litið til baka, ég hljóp í rétta átt, öfugt við þar sem trukkurinn var.“

Eftir árásina hefur hún ekki farið inn á aðalgötur Barcelona en hún hefur heyrt af því að það sé enn fjölmennt á götunum, þó ekki eins troðið og fyrir árásina. Hún segir andrúmsloftið vera breytt. ,,Það er mismunandi hvernig fólk er að taka þessu, þetta hefur engin áhrif á suma en aðrir finna fyrir óöryggi að vera hérna. Það er samt mikill samhugur hjá öllum.“

Ætlar ekki heim

Hrafnhildur býr í Barcelona þar sem hún er í starfsnámi á hosteli, í kringum 15 mínútur frá La Rambla, þar sem hún verður næstu 9 mánuði en hún er aðeins búin að búa í Barcelona í viku. Hún segist þó ekki ætla að láta þetta hrekja sig heim heldur er hún ákveðin í að dvelja þar áfram.

,,Mig langar að koma heim en ætla ekki að gera það. Það er það sem þeir vilja þessir hryðjuverkamenn, hræða mann og eyðileggja fyrir fólki.“

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó