„Þetta er veiki sem nú þegar er komin svo víða að ekki er unnt að reisa skorður við henni með lögboðnum sóttvörnum“

„Þetta er veiki sem nú þegar er komin svo víða að ekki er unnt að reisa skorður við henni með lögboðnum sóttvörnum“

Guðmundur Magnússon læknaprófessor (1863-1924) skrifaði grein í Lögberg þann 13. júní árið 1895. Í greininni Um lungnatæringu á Íslandi upplýsir hann Íslendinga í Vesturheimi um sjúkdóm sem til langs tíma hafði sveipað fjarlæg lönd myrkri með miklu mannfalli – sjúkdóm sem var nú einnig farinn að ógna lýðheilsu fólks á norðlægari slóðum. Berklar voru farnir að hreiðra um sig í lungum landsmanna og tilfellum fjölgaði jafnt og þétt.

Jeg færi lesendum greinar þessarar ill tíðindi; jeg færi þeim þá frjett, að lungnatæring hefur mjög færst í vöxt á Íslandi á síðari árum […] Þar eð veikin veldur svo miklum manndauða, sem raun er á orðin erlendis, er það augljóst, að voði er á ferðum, ef hún heldur áfram jafnhröðum fetum. Hjer er sannarlega um alvarlegt mál að ræða. Vjer erum svo fámenn þjóð, að vjer megum ekki við því, að nýr sjúkdómur festist í landinu, sem leggur fjölda manna í gröfina á unga aldri. En það mun sannast, að svo verður, nema alþýða leggi sig sjálf alla fram til þess að sporna við því. Þetta er veiki, sem nú þegar er komin svo víða, að ekki er unnt að reisa skorður við henni með lögboðnum sóttvörnum. Það þarf sífellda aðgæzlu almennings til þess að verjast henni […] en veikin er svo hættuleg og torlæknuð, að mikið er leggjandi í sölurnar til þess að forðast hana. Það er mín skoðun, að með góðum vilja megi að minnsta kosti tefja fyrir og draga úr útbreiðslu veikinnar.

…það er ekkert efamál, að [veikin] getur læknast og horfið; og svo mundi vera miklu optar en nú er, ef sjúklingarnir sýndu meiri hirðusemi með að leita læknisráðs í tíma. Af því veikin er optast hægfara í fyrstu, hættir sjúklingnum til að fresta því. Þangað til veikin er orðin svo mögnuð, að það er um seinan.

Sé þessa gætt, er ekki mikil hætta á því, að veikin berist frá sjúklingunum til heilbrigðra, og það ætti að vera siðferðisleg skylda sjúklinganna að gera allt sitt til að komast hjá því, að svo verði. Það ætti að vera þeim ógurleg tilhugsun að valda með hirðuleysi sínu hættulegri veiki á öðrum, ef til vill þeim, sem næst þeim standa og eru þeim kærastir.

Heimild: Grenndargralið

Sambíó

UMMÆLI