Þetta er mín saga – hver er þín saga? – Þorgeir Rúnar Finnsson

Ég er Akureyringur í húð og hár og hef búið í þessum frábæra bæ langstærstan hluta lífs míns. Pabbi er Finnur Marinósson úr Ægisgötu og mamma Guðrún Gunnarsdóttir úr Lækjargötu (Gilinu). Sjálfur er ég sannkallaður brekkusnigill, bjó fyrstu fimm árin í Dalsgerði og næstu átján í Norðurbyggð.

Var í leikskóla á Lundarseli og fór því næst í Barnaskólann, sem síðar varð að Brekkuskóla. Var í síðasta árgangnum sem fór í “Gaggann” með krökkum úr Lundar- og Oddeyrarskóla. Næst lá leiðin í Menntaskólann og því næst í Háskólann. Ég er því lifandi sönnun þess að á Akureyri er hægt að feta menntaveginn eins lengi og mann lystir! Æskuárin voru skemmtileg og einhvern veginn var alltaf gott veður í minningunni, enda Akureyrsk sumur auðvitað engu lík. Heimsóknir til ömmu Sigrúnar og afa Marinós í Ægisgötu þar sem afi Marinó kenndi mér að tefla, og til ömmu Stellu og afa Nunna í Gilinu þar sem maður leitaði oftar en ekki að golfkúlum sem afi Nunni hafði slegið upp í brekkurnar.

Íþróttir hafa alltaf skipað stóran sess í lífi mínu. Æfði með KA. Fótbolta á sumrin og handbolta á veturna. Prófaði ýmislegt fleira; blak, badminton, júdó, körfubolta og frjálsar svo eitthvað sé nefnt, enda úrvalið af íþróttum og tómstundum sem í boði eru til mikillar fyrirmyndar. Á fjöldamarga vini og kunningja sem ég hef kynnst í gegnum íþróttir, skóla og vinnu og er afar þakklátur fyrir það.

Árið 2007 kynntist ég grenvískri snót, Síssu Eyfjörð, og höfum við verið saman síðan. Giftum okkur árið 2014 og eigum saman tvö börn, sjö ára stelpu og eins árs strák. Höfum búið til skiptis á Akureyri og Grenivík, auk eins yndislegs árs í Svíþjóð, en erum flutt aftur á brekkuna þar sem við hlökkum til að fylgjast með börnunum vaxa og dafna. Mér þykir vænt um Akureyri. Þennan fallega bæ sem, þrátt fyrir að vera smáþorp á heimsmælikvarða, er líkari stórborg að svo mörgu leyti. Akureyri hefur fóstrað mig megnið af minni ævi og ég hef notið afar góðs af því að búa hér. Nú er kominn tími til að gefa eitthvað til baka og hjálpa til við að gera bæinn að enn eftirsóknarverðari kosti til búsetu fyrir unga sem aldna. Þess vegna býð ég mig fram í komandi bæjarstjórnarkosningum hér á Akureyri. Hér er best að búa.

Þorgeir Rúnar Finnsson skipar 4. sæti L-listans fyrir bæjarstjórnarkosningar á Akureyri.

VG

UMMÆLI

Sambíó