Ég er fædd og uppalin Akureyringur, þó að það megi rekja ættir mínar út fyrir bæjarmörkin. Móðir mín Eygló Helga Þorsteinsdóttir er Hörgdælingur og faðir minn Baldur Helgason (Balli píp) er Höfðhverfingur. Amma mín og afi Helgi og Billi bjuggu um tíma á Svalbarðströndinni. Það má því eiginlega segja að ég og systkini mín séum ágætis sameiningartákn sveitarfélaganna!
Ég er fædd 3. júní 1982 og hef búið mest alla ævi á Akureyri. Fór þó aðeins út fyrir bæjarmörkin um tíma til að læra og leika mér. Annars vegar til Hafnarfjarðar í nám og svo til Costa Rica í sjálfboðaliðastarf.
Þegar ferðalagi mínu um Costa Rica lauk, var planið að stoppa á Akureyri, flytja aftur til mömmu og pabba, safna pening og fara svo suður eða út í frekara nám. Það var á þessum tíma sem ég kynnist Baldvin sem er eiginmaðurinn minn í dag. Hann er rótgróinn Akureyringur og var ekki á leið neitt um sinn.
Það varð því úr að ég hóf nám í fjölmiðlafræði og sá fyrir mér að vera í sjónvarpi, en ég áttaði mig fljótt á því að ég hafði meiri áhuga á því að vera sú sem tekið væri viðtal við en sú sem tæki viðtalið 🙂 Ég kláraði samt námið. Fór svo aftur í nám og útskrifaðist þá með diplómu sem verkefnastjóri, nokkuð sem var mjög skemmtilegt nám og sem hefur nýst mér vel.
Árið 2014 ákvað ég að bjóða mig fram í 2. sætið á lista L-listans, eftir að vera búin að vera starfa og sitja á listanum síðan 2002. Þessi 4 ár í bæjarstjórn eru búin að vera besti skóli sem ég hef setið í. Mikið að læra og margar áskoranir og er ég í dag afskaplega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri að kynnast þessu umhverfi og tækifæri fyrir að vera talsmaður ungra barnafjölskyldna á Akureyri.
Ég er gift Baldvin Erni Harðasyni og saman eigum við tvö börn, Karítas Önju og Tristan Baldur.
Akureyri er frábær staður til að búa á. Hér höfum við allt á mjög litlum bletti þannig að það er allt í innan við 7 mín fjarlægð. Ég er þakklát fyrir að hafa þau forréttindi að alast upp hér hér eru mín fjölskylda og mínir bestu vinir. Hér er gott að búa.
UMMÆLI