Sagan mín hefst Ólafsfirði þar sem ég er fædd og uppalin til sex ára aldurs. Þá lá leiðin til Akureyrar með móður minni og fósturföður. Ástæðan fyrir flutningunum var að pabbi hafði menntað sig í tæknifræði í Noregi og fengið gott starf í Slippstöðinni á Akureyri. Þetta voru erfið skref fyrir litla stúlku að fara frá öllum vinum og ættingjum á nýjar slóðir en Akureyri tók vel á móti mér. Fyrstu þrjú skólaárin gekk ég í Barnaskóla Akureyrar en fluttist síðan í Lundarskóla þegar hann var stofnaður 1974. Síðan lá leiðin í Gagnfræðaskólann og að lokum í Menntaskólann á Akureyri og lauk ég stúdentsprófi þaðan 1984.
Ég var ellefu ára þegar ég ákvað að verða kennari þannig að leiðin eftir stúdentspróf var greið, haldið var suður yfir heiðar í Kennaraháskóla Íslands. Þegar því námi lauk var kominn kærasti í spilið og var hann búsettur á Akureyri en fæddur og uppalin í Hrísey. Með okkur var strákurinn hans þá fimm ára. Nú þurfti litla fjölskyldan að taka ákvörðun, hvar væri nú gott að festa rætur. Eftir talsverðar vangaveltur var ákveðið að halda norður og varð Hrafnagilsskóli í Eyjafjarðarsveit fyrir valinu. Þar bjuggum við í sex ár og annað barn bættist í hópinn.
Á þessum tímapunkti langaði okkur að kaupa húsnæði en við höfðum búið í skólahúsinu í Hrafnagilsskóla. Það kom ekkert annað til greina en að flytja okkur til Akureyrar, kaupa húsnæði og koma okkur fyrir þar. Í barnahópin bættust síðan tvö börn til viðbótar og síðan þá tengdabörn og eitt barnabarn. Hér finnst okkur gott að búa í nálægð við náttúruna og sjóinn. Við gerðum upp gamalt hús í Aðalstrætinu en byggðum síðan nýtt hús í Naustahverfinu og vorum með þeim fyrstu sem fluttu í það hverfi. Okkur líður vel hér í bænum, börnin okkar eiga sínar rætur hér og þó þau hafi farið burtu til að mennta sig finnst þeim afskaplega ljúft að koma heim til Akureyrar.
Nú er ég tilbúin til að vinna fyrir bæinn sem hefur fóstrað mig og fjölskylduna mína í öll þessi ár. Hér er gott að búa og verður það áfram.
Ólöf Inga Andrésdóttir skipar 18. sæti L-listans fyrir bæjarstjórnarkosningar á Akureyri.
UMMÆLI