NTC

Þetta er mín saga – Hver er þín saga? – Oddur Halldórsson

Ég er þorpari, sonur Siggu í Bót og Dóra skó. Ódæll í æsku, en gekk vel að læra og flaut á því. Sendur í sveit á sumrin frá 7 ára aldri. Leikvöllurinn var sjórinn og fjaran í Bótinni og ég var blautur í lappirnar mestan hluta æskunnar. Stundaði alls kona íþróttir, þó mest handbolta. Var góður og þótti efnilegur, en flughræðsla hélt aftur að mér. Spilaði minn fyrsta meistaraflokksleik 15 ára og þann síðasta 32 ára. Hafði dómararéttindi, bæði í fótbolta og handbolta.

Var lengi í stjórn Handknattleiksdeildar Þórs. Ég hitti Möggu mína 16 ára gamall og við höfum farið saman í gegnum lífið síðan. Hún hefur húsbóndaárið fram yfir mig. Við eigum 3 börn, 2 tengdabörn og 4 barnabörn. Lærði blikksmíði, en prófaði önnur störf, t.d að vinna á veghefli og á traktorsgröfu. Ég var hitaveitustjóri í Hrísey 1983-4. Ég stofnaði Blikkrás 1986, þá 26 ára gamall og rek hana enn með 15 manns í vinnu. Ég er stoltur af því að okkur á Blikkrás tókst að hressa öskudaginn við sem barnahátíð, þegar okkur fannst hann vera að lognast rétt fyrir 1990. Þótt ég ræki fyrirtæki, gaf ég mér samt tíma til að setjast á skólabekk í Háskólanum á Akureyri og útskrifaðist þaðan sem iðnrekstrarfræðingur árið 1992. Fyrir kosningar 1998 stofnuð við L-listann, því okkur fannst rödd hins almenna borgara vanta í bæjarstjórn og afl sem var engu háð nema Akureyri og íbúum hennar. Ég var bæjarfulltrúi í 20 ár þar af 16 ár fyrir L-listann. Ég sat í bæjarráði í 16 ár. Auk ýmissa annara nefnda, stjórna og ráða. Ég sat minn fyrsta bæjarstjórnarfund í júní 1994 og þann síðasta í maí 2014.
Við hjónin erum mjög dugleg að ferðast og höfum ferðast mikið innanlands. Eftir að ég vann bug á flughræðslunni með hjálp Rúnars Guðbjartssonar sálfræðings og fyrrverandi flugstjóra höfum við ferðast mikið erlendis . Við hjólum og göngum mikið, bæði innan og utan landsteinanna.

Ég hef barist við kvíðaröskun eða ofsakvíða síðan í kringum 1990 og þarf oft að hafa fyrir því að láta mér líða vel.
Ég hef búið á Akureyri ( í þorpinu) alla æfi, fyrir utan eitt ár sem ég bjó í núverandi miðbæ Akureyrar, Hrísey. Akureyri er í mínum augum besti staður á landinu. Sólin, snjórinn,lognið, fjöllin, fjörðurinn. Dásamlegt. Ég horfi á og dáist af Vaðlaheiðinni á hverjum einasta degi. Fæ aldrei leið á því.

Lífið er dásamlegt.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó