Ég er fæddur og uppalin Akureyringur. Fyrsta sumarið sem ég man eitthvað eftir mér var þegar ég var sendur einn á Ástjörn í tvo mánuði, fimm ára gamall snáði. Þar voru reyndar um 100 aðrir krakkar og það var svolítið erfitt að vera burtu svona lengi. Mér fannst þetta samt ekki verra en það að ég fór fimm sumur í viðbót.
Eftir fermingu var maður aðalega hjá Steinu frænku á sigló. Það var yndislegt að vera á sigló. Ég vann á verksmiðjunum þegar ég var í síðsta bekk í gagganum, mamma sagði fyrst að fyrst ég nennti ekki að læra þá gæti ég bara unnið. Við syskinin vorum átta talsins ég var næst yngstur og annar af tveimur drengjum og sex systur sem voru að reyna að ala mann upp.
Ég fór í VMA og ætlaði að verða kokkur. Flutti suður og ætlaði á samning og ætlað að njóta þessa að búa fyrir sunnan, eiga yndislega kærustu og gera allt. Ég var kominn heim ári seinna því ég sá að Reykjavík var ekki fyrir mig. Ég eignaðist fimm börn með þessari kærustu/eiginkonu minni fyrir 29 ára aldur og var farinn að reka mitt eigið fyrirtæki með annarri vinnu 25 ára. Ég vann á sambýli í 10 ár og nokkur ár í tölvugeiranum, sá um rekstur og uppsetningu á nokkrum af stærstu tölvukerfa bæjarins.
Ég stofnaði annað fyrirtæki með öðrum þegar ég var 32 ára og er að vinna þar enn í dag með 25 manns í vinnu. Í apríl 2014 ákvað ég að skella mér í pólitík að alvöru og varð bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar í fjögur gefandi og skemmtileg ár með frábæru fólki. Mér finnst Akureyri vera lang flottasta sveitarfélag landsins, þó það sé ekki allt fullkomið þá höfum við nánast allt hér innan seilingar. Reynum að vera ánægð með það sem við höfum.
Hér er best að búa.
UMMÆLI