NTC

Þetta er mín saga – Hver er þín saga? – Jón Þorvaldur Heiðarsson

Ég er bóndasonur, fæddur í Austur-Húnavatnsslýslu og ólst upp á bæ sem heitir Hæli og er 12 km frá Blönduósi. Þar ráku foreldrar mínir stórt fjárbú. Ekki langaði mig samt að feta í fótspor föður míns og verða bóndi. Ég öfundaði þéttbýlið, þar sem krakkar gátu hist og leikið sér hvenær sem þau vildu.

Ég kom fyrst til Akureyrar líklega átta ára gamall, það var á sólríkum sumardegi og veðrið var svo gott að ég hafð varla upplifað annað eins á minni stuttu ævi. Móðir mín segir að ég hafi þá lýst því yfir að ég ætlaði að eiga heima á Akureyri þegar ég yrði stór, þar væri svo gott veður.

Ég fór í Menntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan, það voru góð ár. Eftir háskólanám og búsetu í Reykjavík tókst mér síðan að fá konuna til að flytja með mér til Akureyrar. Hún er frá Akureyri en ekki ég svo eiginlega hefði hún átt að draga mig en ekki öfugt.

Mig dreymir drauma um margtóna, skemmtilegt og skapandi íslenskt samfélag. Samfélag þar sem margar mismunandi byggðir blómstra, hver með sín menningarsérkenni. Í þessari sýn spilar Akureyri lykilhlutverk. Akureyri þarf að vaxa og dafna og axla það risastóra hlutverk að verða hin borgin á Íslandi. Að því vil ég vinna. Það verður stórt stökk fyrir íslenska þjóð þegar hún fer að tala um tvær borgir í landinu en ekki eina. Við þurfum að komast út úr tvíhyggjunni að það sé bara höfuðborgarsvæðið og svo rest. Að það sé bara borg og landsbyggð. Heldur að það séu borgir og landsbyggðir.

Mig dreymir einnig um Akureyri sem eina fallegustu smáborg í Evrópu. Með sérlega fallegum miðbæ sem tengist Pollinum og Eyrinni. Það gerist ekki sjálfkrafa. Það þarf að vinna markvisst að því. Þá munum við draga að okkur fólk og fyrirtæki í enn ríkara mæli en nú.

Hér er best að búa.

Jón Þorvaldur Heiðarsson skipar 11 sæti L-listans fyrir bæjarstjórnarkosningar á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó