NTC

Þetta er mín saga – Hver er þín saga? – Guðrún Karítas Garðarsdóttir

Ég er Reykvíkingur, uppalin í Breiðholtinu og var þar bæði í grunnskóla og framhaldsskóla. Breiðholtið var frábært staður að alast upp á, fjölbreytt mannlíf og mjög barnvænt hverfi. Hvort sem það var sumar eða vetur, hverfið iðaði af börnum í leik. Að stúdentsprófi loknu tók við frí frá skóla í tvö ár en haustið 1993 var tekin U-beygja og ákvörðun tekin um að fara í Háskólann á Akureyri. Hingað kom ég ásamt fyrrum eiginmanni mínum, ófrísk af fyrsta barni og búskapur hófst á stúdentagörðum. Hér bjuggum við og lukum námi og eftir Akureyrarárin þá tók við baráttan um að færa björg í bú og að ná sér í reynslu. Þessi ár einkenndust af flutningum; eitt ár í Þorlákshöfn þar sem barn nr. 2 bættist við , Vestmannaeyjar í fimm ár, fimm ár í Keflavík og svo til Reykjavíkur. En alltaf togaði Akureyri í, alltaf þótti mér jafn gott að keyra inn í bæinn þegar ég kom hingað í fríum. Og þegar við mæðgur stóðum á tímamótum í upphafi árs 2010 þá var Akureyri góður kostur til að hefja nýjan kafla og hingað vorum við komnar það sama sumar. Hér eignaðist ég góðan mann, Verkmenntaskólinn tók afar vel á móti eldri dóttur minni sem var að hefja sína framhaldsskólagöngu á starfsbraut og grunnskólinn sem tók við þeirri yngri reyndist vel. Starfsfólki á starfsbraut VMA verð ég ævinlega þakklát fyrir að gera dóttur minn kleift að upplifa sín bestu skólaár.

Frá árinu 2014 hef ég verið í þeirri stöðu að vera atvinnurekandi. Við hjónin rekum ásamt öðrum hjónum byggingarfyrirtæki og veitum að jafnaði 30 manns atvinnu. Einnig höfum við tekið þátt í því að veita fötluðum vinnu og að mínu mati er það eitt það besta sem hvert fyrirtæki getur gert. Að sjá fatlaða einstaklinga vaxa og dafna í vinnu á almennum markaði er óendanlega gott og ávinningurinn fyrir fólkið sem fær þau sem vinnufélaga er ekki minni.

Á síðasta kjörtímabili tók ég þátt í fyrsta sinn í pólitík og hef síðastliðin fjögur ár setið í Velferðarráði. Það er óhætt að segja að innistæðan í reynslubankanum hafi aukist við það. Málefnin eru mikilvæg og hef ég margoft fundið hvað eigin reynsla t.d. af málefnum fatlaðra hefur komið sér vel.

Af öllum þeim stöðum sem ég hef búið á þá var það Akureyri sem stal hjarta mínu; elsku Akureyri sem hefur golfvöllinn, Hlíðarfjall, sundlaugina, öll skólastigin og góða veðrið.

Hér er best að búa”

Guðrún Karítas Garðarsdóttir skiptar 12. sæti L-listans fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó