NTC

Þetta er mín saga – Hver er þín saga? – Geir Kristinn Aðalsteinsson

Ég er borinn og barnfæddur Akureyringur, hef nokkrum sinnum prófað að búa annarsstaðar en Akureyrartaugin er sterk og togar mig alltaf til baka. Mamma ólst upp í Bótinni og pabbi fæddist í Bakkaseli í Öxnadal og þessir staðir eru mér kærir. Ég ólst upp í þorpinu, æfði allar boltaíþróttir sem í boði voru á grunnskólaárunum og fór að horfa á eftir stelpum á táningsaldrinum. Var tiltölulega fljótur að finna þá einu réttu og núna í sumar eru 25 ár síðan við Linda hittumst á Sálarballi í Ýdölum og höfum verið saman síðan. Þrír yndislegir drengir eru sköpunarverk okkar, sá elsti kominn á þrítugsaldurinn og sá yngsti fjörkálfur í fyrsta bekk.

Að loknum framhaldsskóla fluttum við til Reykjavíkur. Entumst þar í ár áður en við héldum aftur heim. Við stöldruðum reyndar við á miðri leið og bjuggum einn vetur á Húnavöllum þar sem ég kenndi við grunnskólann á staðnum. Þegar til Akureyrar kom á ný tók við nám í viðskiptafræði við HA sem lauk upp úr aldamótum. Næsti viðkomustaður fjölskyldunnar var Århus í Danmörku þar sem meistaranám tók við. Áttum þar tvö yndisleg ár áður en leiðin lá aftur til Reykjavíkur. Entumst þar aftur í eitt ár áður en við komum aftur heim til Akureyrar árið 2007. Við viljum hvergi annarsstaðar búa enda hefur bærinn alla þá kosti sem við sækjumst eftir, þó við söknum stundum danska vorsins.

Ég hef alla tíð verið mikið í íþróttum, spilaði handbolta fram til þrítugs þar til ég þurfti að lúta í lægra haldi fyrir krossböndum. Í dag er það golfið, blakið og skíðin sem eiga hug minn allan, auk þess sem ég gríp reglulega í hinar og þessar íþróttagreinar. Í dag gegni ég því skemmtilega embætti að vera formaður Íþróttabandalags Akureyrar.

Vegna dálætis míns á Akureyri ákvað ég að bjóða mig fram fyrir L-listann í kosningunum árið 2010, var oddviti listans. Var svo heppinn að fá að gegna trúnaðarstörfum fyrir bæinn minn í kjölfarið, geri enn og vonandi áfram um ókomin ár.

Geir Kristinn Aðalsteinsson skipar 5. sæti L–listans fyrir bæjarstjórnarkosningar á AKureyri

Sambíó

UMMÆLI