Karen Björg Þorsteinsdóttir er 25 ára Grenvíkingur og sérstaklega fyndin, ung kona. Karen hefur verið að gera það gott undanfarið sem uppistandari meðfram námi í sálfræði við Háskóla Íslands. Karen kom m.a. fram í þættinum Loga í beinni þar sem hún flutti uppistand og sló í gegn en undanfarið hefur hún haft í nægu að snúast og komið fram á hinum ýmsu viðburðum, hvort sem það er afmæli, árshátíðir, brúðkaup, konukvöld, skemmtanir í grunnskólum og elliheimilum eða eitthvað allt annað.
Tíska og blátt mjólkurkex
Karen útskrifast úr sálfræðinámi frá Háskóla Íslands í júní en hefur unnið sem uppistandari með skólanum ásamt því að vera pistlahöfundur hjá Nude magazine. „Ég skrifa bara það sem mér dettur í hug þar, svo lengi sem ritstjórinn „gúdderar“ það auðvitað. Ég hef mjög mikinn áhuga á tísku og skrifa svolítið um hana, er undir frekar miklum áhrifum frá móður minni og frænku með það, þær eru svo miklar skvísur,“ segir Karen um áhugasvið sitt svona á milli þess sem hún er ekki að reyna að vera fyndin. Í kjölfarið kom uppáhaldsmatur Karenar til umræðu en hann er einfaldlega kex. Með mjólk eða ekki mjólk, það fer eftir stað og stund. „Já, uppáhaldsmaturinn minn er kex. Hobbsnobs og blátt mjólkurkex. „Keep it simple.“ Stundum með mjólk, stundum ekki.“
„Ég elska Grenivík“
Karen er fædd og uppalin á Grenivík en þykir það ólíklegt að hún snúi aftur á æskuslóðirnar til frambúðar.
„Ég ELSKA Grenivík. Ég ætla klárlega að eiga hús þar þegar ég verð eldri en ég held ég muni aldrei búa á Grenivík aftur. Það er planið að eiga Grenivík sem svona afdrep, fara þangað í viku og gera bara ekki neitt. Sumir eru vanir að vera í svona hringiðu endalaust eins og hérna í borginni en mér finnst alveg geggjað að fá svona algjöran frið og ró eins og á Grenivík,“ segir Karen um uppeldisstaðinn.
Jim Carrey innblásturinn af uppistandstandi
En hvernig fer maður hreinlega frá Grenivík og út í uppistand? Karen segir það ekki kjörið að leggja fyrir sér uppistand sem atvinnu á Grenivík en innblásturinn hafi hins vegar kviknað á Grenivík, bara fyrir framan sjónvarpið…
„Ég hef elskað og dáð Jim Carrey frá því að ég var pínulítil, frá því að ég sá Ace Ventura í fyrsta skiptið. Í lok myndananna voru sýnd svona „mistök“ og þá var hann svo oft að gera mistök viljandi bara til þess eins að fá alla á settinu til að hlæja og þá hugsaði ég bara vá, þetta er geggjað. Þetta myndi ég vilja gera. Haga mér eins og asni bara svo aðrir geti hlegið,“ segir Karen og lýsir því að hún hafi smitast af gríni og glensi mjög snemma.
Karen Björg hefur komið víða við á leið sinni í uppistandið. Hún tók virkan þátt í félagslífinu bæði í Grunnskóla Grenivíkur og Menntaskólanum á Akureyri þar sem hún lék í leikfélögum skólanna í nokkrum uppfærslum. Hún lýsir því að í Grenivíkurskóla hafi uppfærslurnar ævinlega verið mjög metnaðarfullar þrátt fyrir að skólinn sé mjög lítill, en á þessum árum voru aðeins í kringum 60 nemendur í skólanum.
Ældi nokkrum sinnum fyrir fyrsta uppistandið
Fyrsta uppistand Karenar var síðan á árshátíð Menntaskólans á Akureyri en þar er hefð fyrir því að stelpa og strákur í útskriftarárganginum flytji Minni karla og Minni kvenna, ræður um hitt kynið sem yfirleitt eru settar fram á skoplegan hátt.
„Þetta er yfirleitt ræða við púlt en ég fékk bara einhvern gráan fiðring þarna og ætlaði sko að láta muna eftir mér. Þannig að ég skrifaði eitthvað bull þarna mánuði fyrir og fór að æfa upphátt. Svo kom að þessu og ég ældi alveg nokkrum sinnum áður en ég fór upp á svið, sko. Fékk örugglega einhvers konar hita og panik en viti menn, þetta gekk bara vel!“ segir Karen og er viss um að það hafi hjálpað hversu margir voru í salnum en á árshátíðinni eru yfirleitt í kringum 600 gestir. „Það hjálpaði klárlega að það voru svona margir í salnum, þá er pottþétt að einhver hlær. Það finnst alveg örugglega einhverjum einum ég kannski fyndin allavega.“
Mundi ekki eftir því að hafa verið á sviðinu
Karen segist varla trúa því sjálf hversu vel hefur gengið að starfa sem uppistandari. Skemmtanabransinn er stór markaður og alltaf eru einhver tilefni sem verið er að fagna og vantar skemmtikraft, sérstaklega í Reykjavík. Hún segir þetta fyrst og fremst æfingu því enginn áheyrendahópur sé eins.
„Þú að æfa þig heima í stofu er bara allt annað en að vera fyrir framan áhorfendur. Þetta fer allt eftir áheyrendunum sem þú ert með þegar þú ferð með gamanmál,“ segir Karen en nú er hún orðin mun vanari og öruggari en hún var þegar hún byrjaði fyrst fyrir nokkrum árum.
„Fyrstu uppistöndin mín… Já, þá mundi ég ekki einu sinni eftir að hafa verið upp á sviði, ég var svo stressuð. Nú er ég orðin miklu slakari og er miklu meira að tala við fólkið í salnum. Fyrst var ég svo svakalega vélræn og flutti allt alveg eins. Ég fór í algjört „black-out“ bara þegar ég var uppi á sviði.“
Mjög ávanabindandi að standa fyrir framan marga og heyra þá hlæja
Karen heldur úti facebook-síðu þar sem hægt er að fylgjast með henni og komandi viðburðum sem hún verður að skemmta á. Hún segir það ótrúlegt hvað þetta er skemmtilegt og engin tvö skipti þar sem hún kemur fram eru eins. „Það er mjög ávanabindandi að standa fyrir framan marga og heyra þá hlæja. Ég hef aldrei prufað eiturlyf en ég get ímyndað mér að þetta sé svipað. Þetta er bara algjör alsæla þegar vel gengur.“
Þar sem Karen hefur verið í námi síðastliðin þrjú ár hefur hún ekki getað hellt sér alfarið í uppstandið eins og hún hefði viljað en nú er sá tími ef til vill kominn. „Þetta er búið að ganga mjög vel með skólanum en nú er ég að útskrifast og þá kannski fer maður að gera þetta af meiri alvöru, markaðssetja sig meira og gera eitthvað stærra.“
Viðtalið birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 31. maí.
UMMÆLI