NTC

Þetta er allt indælis fólk sem verslar í Höepfner.

Þetta er allt indælis fólk sem verslar í Höepfner.

Sennilega muna flestir miðaldra og eldri Akureyringar sem og fólk úr nágrannabyggðarlögum eftir kjörbúð KEA í Hafnarstræti 20. Þá er verslunarfólkið Helga Hallgrímsdóttir og Baldvin Ólafsson eftirminnileg þeim sem gerðu matarinnkaup í Höepfner eins og verslunin var gjarnan kölluð. Baldvin starfaði í Höepfner í rúm 40 ár. Helga starfaði í tæp 50 ár hjá Kaupfélagi Eyfirðinga, lungann úr þeim tíma í Höepfner-versluninni.

Afgreiðslustörf – sambærileg þeim sem Helga og Baldvin sinntu í Höepfner og þóttu sjálfsögð á þeim tíma – fólust að einhverju leyti í meiri þjónustu og nánari samskiptum við viðskiptavini en tíðkast hefur hin seinni ár. Viðskiptavinurinn beið við búðarborðið meðan starfsmaður verslunarinnar sótti vörurnar sem óskað var eftir. Kannski á einhvern hátt sambærilegt við verslunarhegðun þá sem nú er farin að ryðja sér til rúms, ekki síst í covid-faraldrinum, þ.e. netverslun og akstur heim að dyrum.

Í ársbyrjun 1987 tók Helga Jóna Sveinsdóttir, þáverandi blaðamaður Dags, viðtal við Helgu sem þá var nýlega hætt störfum hjá KEA, 71 árs að aldri. Grenndargralið rifjar upp minningar Helgu af afgreiðslustarfinu á bak við búðarborðið í Höepfner og samskiptum hennar við viðskiptavini.

„Ég byrjaði í Höepfner 1942 og starfaði því þar í 45 ár, en tæp 5 ár starfaði ég við annað hjá kaupfélaginu. Ég sótti um vinnu hjá félaginu að sumri til. Það var enga vinnu að fá, en Halldór Vagnsson réð mig í lausavinnu. Hann var þá yfir verksmiðjunum. Hann sagði að það væri ekkert að gera en hann skyldi athuga málið með haustinu. Síðan var ég ráðin í Sjöfn, en var sífellt lánuð í hinar og þessar deildir og þar kom að ég var lánuð í Höepfner í 2 daga og síðan hef ég verið þar. Mér var ekkert skilað til baka aftur. Árið eftir byrjaði Baldvin Ólafsson og hann hætti núna um leið og ég.“

Helga segir að búðin hafi verið eins og heimili. „Við vorum afskaplega heppin með fólk, margt af því starfaði í 10-15 ár. Þetta er orðið allt öðruvísi núna, fólk er kannski í 2-3 mánuði og síðan er það farið í aðra vinnu.“

Hefurðu unnið alveg sleitulaust fullan vinnudag öll þessi 45 ár?

„Já og það má telja þau skipti sem ég hef orðið veik á fingrum annarrar handar. Stelpurnar sem ég vann með sögðu að ég ætti heimsmet í að verða ekki veik. Ég er svo heppin að ég er alveg stálhraust og ég held að ég kunni ekki almennilega að meta það. Ég átti að hætta þegar ég varð sjötug, en því var alltaf slegið á frest og svo hætti ég loks núna. Fólki er sagt upp þegar það er sjötugt, en svo stóð þannig á að það var enginn til að leysa af síðast liðið sumar svo ég var áfram og síðan dróst þetta fram að áramótum.“

Við hvað starfaðir þú í Höepfner?

„Bara við allt. Það er ekkert svo verkaskipt þarna, það vinna allir við allt. Ég held að ég fari rétt með að Höepfner hafi verið breytt í kjörbúð 1957, áður voru þetta tvær búðir. Öðrum megin var mjólkur- og brauðbúð og hinum megin önnur matvara, en síðan var þilið á milli tekið niður og þessar tvær búðir sameinaðar í eina.“

Hvernig finnst þér að vera hætt eftir öll þessi ár?

„Ég er ekki búin að átta mig á því, mér finnst ennþá eins og ég sé bara í nokkurra daga fríi. Ég held að það verði voðalega skrítið þegar frá líður af því ég er svo hraust og þó ég sé orðin ævagömul finnst mér ég ekki vera neitt gömul. Annars hef ég nóg að gera, ég á mikið af blómum sem ég get sinnt og ég hef alla ævi unnið mikla handavinnu og ég held því áfram, ég les líka mikið, þannig að ég kvíði ekkert aðgerðaleysinu.“

Helga er sennilega ein af örfáum Innbæingum sem þar eru fæddir og hafa aldrei átt annars staðar heima. „Ég fæddist í Lækjargötu 6 og er líklega bara nýfædd þegar foreldrar mínir flytja í þetta hús, Aðalstræti 44 og hér hef ég átt heima síðan. Núna bý ég hér ein, en áður var hér margt fólk, jafnvel nokkrar fjölskyldur, en núna er rétt pláss fyrir mig eina,“ segir Helga og hlær. „Stofan í þessu húsi þykir nú ekki stór, en í henni bjuggu eitt sinn hjón með 5 börn, þar fyrir utan var a.m.k. ein önnur fjölskylda í húsinu, ef ekki tvær.“

Þú hefur væntanlega upplifað gífurlegar breytingar í verslunarrekstri í bænum?

„Já, auðvitað hafa orðið miklar breytingar, en það er svo skrítið með það að mér finnst ég ekki hafa fundið svo mikið fyrir þeim. Þetta gerist hægt og sígandi og maður aðlagast nýjungunum og finnst þetta alltaf hafa verið svona. Jú, auðvitað er þetta allt öðruvísi en þegar ég byrjaði. Þá þurfti að afgreiða hverja manneskju með allt sem hún keypti. Afgreiðslufólkið stóð bak við búðarborð og sótti allt sem viðskiptavininn vantaði. Þá þurftum við að vigta alla hluti, hveiti, sykur, haframjöl og allt.“

En að lokum, Helga, þekkirðu ekki alla viðskiptavini í Höepfner?

„Jú, jú, ég þekki alla, kannski ekki með nafni, en það þekkja mig allir með nafni. Þetta er allt indælis fólk sem verslar í Höepfner, mikið sveitafólk og eldra fólk og ég held að við höfum verið alveg einstaklega heppin með viðskiptavini.“

Baldvin Ólafsson og Helga Hallgrímsdóttir létu af störfum fyrir aldurs sakir um áramótin 1986-87. Baldvin lést árið 2015. Helga lést árið 1988.

Heimild: Helga Jóna Sveinsdóttir. (1987, 14. janúar). Búðin var mitt annað heimili. Dagur, bls. 2.

Mynd af Helgu Hallgrímsdóttur og viðskiptavini: Minjasafnið á Akureyri. (2020). Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1526310

Mynd af Baldvini Ólafssyni: Mbl.is. (2015). Fengin af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1567830/

VG

UMMÆLI