Gæludýr.is

Þétt dagskrá á morgun á fullveldisdeginum

Þétt dagskrá á morgun á fullveldisdeginum

Mikið verður um að vera á Akureyri á morgun þegar Íslendingar fagna 100 ára afmæli fullveldisins.

Dagskráin hefst við Íslandsklukkuna hjá Háskóla Akureyrar kl. 13 þegar klukkunni verður hringt 100 sinnum í tilefni dagsins. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, flytur ávarp, og Karlakór Akureyrar – Geysir syngur. Bæjarbúum gefst kostur á að hringja Íslandsklukkunni, hver einu sinni en samtals 100 sinnum og fá þannig nöfn sín skráð í sögubækurnar. Skráning er á www.unak.is/is/1918. Að athöfninni lokinni verður boðið upp á kakó og smákökur í Miðborg háskólans.

Klukkan 14 verður sýningin Bæjarbragur: Í upphafi fullveldis opnuð á Amtsbókasafninu. Á sýningunni verða til sýnis ljósmyndir frá Akureyri í upphafi fullveldis ásamt upplýsingum sem unnar eru upp úr skjölum og bókum frá sama tímabili. Hvernig leit bærinn út þá? Um er að ræða samsýningu þriggja safna: Amtsbókasafns, Hérðasskjalasafns og Minjasafns og er hún liður í dagskrá afmælisnefndar aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands og nýtur styrks frá fullveldissjóði. Berglind Mari Valdemarsdóttir, verkefnastjóri Amtsbókasafnsins á Akureyri, býður fólk velkomið, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, ávarpar gesti og opnar sýninguna. Boðið verður upp á kaffi, kleinur og konfekt fyrir svanga sýningargesti.

Efnt verður til Rósaboðs í Listasafninu kl. 15. Listakonurnar Hekla Björt Helgadóttir og Brák Jónsdóttir flytja gjörning í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins.

Um kvöldið kl. 20 verður Fullveldiskantatan síðan frumflutt í Menningarhúsinu Hofi. Þar er á ferðinni glæný fagnaðarkantata þar sem kynslóðir og tónlistarstefnur mætast og fagna saman fullveldinu með norðlenskum ofurkröftum. Flytjendur eru Stebbi Jak, Þórhildur Örvarsdóttir, Gísli Rúnar Víðisson, Hymnodia, Æskuraddir fullveldisins, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Strengjasveit fullveldisins. Ljóð: Sigurður Ingólfsson. Tónlist: Michael Jón Clarke.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó