Theodór Ingi verður oddviti Pírata í NorðausturkjördæmiLjósmynd fengin af vef Austurfréttar

Theodór Ingi verður oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi

Theodór Ingi Ólafsson varð efstur í prófkjöri Pírata í Norðausturkjördæmi með 447 atkvæði. Hann verður því í fyrsta sæti á framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Prófkjörið fór fram með rafrænum hætti síðdegis í gær. Austurfrétt greindi fyrst frá.

Theodór er uppalinn Akureyringur en býr í Reykjavík eins og er og starfar þar sem forstöðumaður í íbúðakjarna fyrir geðfatlaða. Theodór útskrifaðist með BA gráðu í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri. Eftir að niðurstöður prófkjörsins komu í ljós sendi Theodór frá sér eftirfarandi tilkynningu á Facebook síðu sinni:

„Ég vil þakka öllu því góða fólki sem kaus mig til þess að leiða lista Pírata í Norðausturkjördæmi. Ég er svo sannarlega til í slaginn og ég hlakka til að nýta tímann fram að kosningum til þess að kynna mig betur fyrir kjósendum í kjördæminu og sýna þeim að Píratar séu góður valkostur þann 30. nóvember.“

Alls buðu níu manns sig fram í prófkjörinu og 660 manns greiddu atkvæði. Kosningin er bindandi fyrir fimm efstu sætin. Í samræmi við niðurstöður prófkjörsins munu því eftirfarandi einstaklingar að öllum líkindum skipa annað til fimmta sæti listans:

2. sæti: Adda Steina

3. sæti: Viktor Traustason

4. sæti: Rúnar Gunnarsson

5. sæti: Guðrún Ágústa Þórdísardóttir

Kjörstjórn mun síðan raða í önnur sæti. Nánari upplýsingar um prófkjörið má finna á vef Pírata með því að smella hér.

UMMÆLI

Sambíó