Gæludýr.is

Þegar Phostle, Braun og „The Coctail Shaker“ sigldu inn Eyjafjörð

Þegar Phostle, Braun og „The Coctail Shaker“ sigldu inn Eyjafjörð

Brynjar Karl Óttarsson skrifar:

Komum skipa af ýmsum stærðum og gerðum til Akureyrar, ekki síst yfir sumartímann, hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Ákveðin stemning ríkir í bænum þegar risastór skemmtiferðaskip á borð við Azamara Pursuit liggja við bryggju. Glæsisnekkjur auðmanna sem lúra á Pollinun sem og ísbrjótar og rannsóknarskip vekja einnig athygli bæjarbúa. Mörg merkileg skip með mikla sögu á bakinu hafa siglt inn Eyjafjörðinn í gegnum tíðina, lagst við bryggju eða einfaldlega legið makindalega á Pollinum. Í einhverjum tilfellum hafa heimsþekktir einstaklingar stigið frá borði og gengið um Akureyri – einstaklingar sem hafa á einn eða annan hátt sett mark sitt á mannkynssöguna.

Skemmtiferðaskipið S.S. Victoria Luise var smíðað í Þýskalandi árið 1900. Skipið tók rúmlega 2000 farþega. Upphaflega hét skipið Deutschland en nafninu var breytt árið 1910. Victoria Luise var eitt stærsta skip síns tíma og jafnframt það hraðskreiðasta í heimi á árunum 1900-1906. Við smíði skipsins var mikið lagt upp úr krafti og hraða á kostnað þæginda fyrir farþega. Hraðinn hafði þær hliðarverkanir að skipið átti það til að hristast töluvert. Gekk það gjarnan undir nafninu The Cocktail Shaker (Hanastélshristarinn). Í mars árið 2010 birti írski blaðamaðurinn Senan Molony niðurstöður rannsóknar sinnar á síðustu samskiptum sem áhöfn skemmtiferðaskipsins Titanic átti við önnur skip á Atlantshafinu síðustu dagana áður en það sökk þann 15. apríl 1912. Samkvæmt Molony sendi Victoria Luise skeyti til áhafnar Titanic laugardaginn 13. apríl á meðan það var á siglingu á sömu slóðum og „hið feiga“ skemmtiferðaskip. Var Victoria Luise þar með eitt síðasta skipið á Atlantshafinu til að senda Titanic skeyti áður en það sökk. Athyglisvert er að aðeins voru smíðuð 14 skemmtiferðaskip með fjórum reykháfum og þrjú þeirra voru á siglingu í grennd við hvert annað um það leyti sem Titanic sökk; RMS Lusitania, RMS Titanic og Victoria Luise. Þremur mánuðum síðar, í júlí 1912, lúrði Victoria Luise á Pollinum við Akureyri. Bærinn var á þessum tíma hvorki fjölmennur né stór. Án efa hefur Victoria Luise sett svip sinn á bæjarlífið vegna stærðar sinnar og fjölda farþega. Af endalokum skipsins er það að segja að Þjóðverjar notuðu það til stríðsrekstrar í fyrri heimsstyrjöldinni. Með friðarsamningunum 1919 var Þjóðverjum gert að afhenda allan sinn flota. Victoria Luise var eina skipið í flotanum sem bandamenn kærðu sig ekki um vegna slæms ástands þess. Árið 1921 var nafni skipsins aftur breytt og nú fékk það nafnið Hansa. Victoria Luise endaði sem brotajárn í Hamborg í Þýskalandi árið 1925.

Victoria Luise var á Akureyri þremur mánuðum eftir að skipið sigldi í grennd við Titanic á Atlantshafinu

Árið 1939 kom þýska skemmtiferðaskipið MS Milwaukee í dagsferð til Akureyrar. Skipið var smíðað árið 1929 fyrir sama skipafélag og átti og gerði út Victoria Luise. Skipið þjónaði sem skemmtiferðaskip fyrir ríkt jafnt sem efnaminna fólk til ársins 1936. Þá var því breytt í lúxusskip fyrir 559 farþega. Þegar MS Milwaukee kom til Akureyrar mánudaginn 17. júlí 1939 var Eva nokkur Braun um borð. Hún átti þá í ástarsambandi við kanslara Þýskalands og leiðtoga nasista þar í landi, Adolf Hitler. Samband þeirra var ekki orðið opinbert á meðan dvöl hennar stóð hér svo hún gat gengið óáreitt um bæinn. Með í för voru systur hennar og móðir. Eva Braun var áhugamanneskja um ljósmyndun og tók hún myndir á Akureyri. Ekki eru mörg ár síðan þessar ljósmyndir birtust almenningi. MS Milwaukee var ekki eina skemmtiferðaskipið sem kom til Akureyrar þennan júlídag. Þýska skipið Steuben lá einnig á Pollinum. Steuben átti eftir að koma við sögu í einni af umtöluðustu aðgerðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni; Operation Hannibal. Steuben var skotið niður af sovéskum kafbáti undir lok stríðsins. Með skipinu fórust á fjórða þúsund manns. Örlög MS Milwaukee urðu hins vegar þau að skipið var notað sem gistiaðstaða fyrir þýska hermenn í seinni heimsstyrjöldinni. Árið 1946 lenti skipið í höndum Breta og nokkru síðar skemmdist það illa í eldi við bryggju í Liverpool. Ári síðar var það rifið í brotajárn.

MS Milwaukee

Rannsóknarskipið Aurora kom við á Akureyri í vísindaleiðangri sem farinn var á fyrri hluta 20. aldar. Ætlunin var að rannsaka loftstein sem lenti í Norður-Íshafi. Prófessor að nafni Decimus Phostle hafði spáð því að smástirni myndi skella á jörðinni með hræðilegum afleiðingum. Sem betur fer skall það ekki á jörðinni heldur sveigði framhjá henni. Hins vegar skall brot af smástirninu í hafið með tilheyrandi jarðskjálftum. Herra Postle og leiðangursmenn um borð í skipinu töldu líklegt að í brotinu væri að finna nýja tegund af málmi og héldu því í rannsóknarleiðangur á Norður-Íshafið með viðkomu á Akureyri. Um borð í Auroru var ekki ómerkari maður en sjálfur Tinni, félagi hans Kolbeinn kafteinn og hundurinn Tobbi. Þeir félagar komu til Akureyrar til að ná í olíu. Á Akureyri hittu þeir Runólf, gamlan félaga Kolbeins en saman fóru þeir á ónefnt kaffihús í bænum og pöntuðu sér sódavatn og whiskí. Eftir stutta viðdvöl á Akureyri héldu þeir för sinni áfram. Heimsókn Tinna og félaga til Akureyrar birtist í tíundu Tinnabókinni Dularfulla stjarnan sem kom út árið 1942. Hún var jafnframt fyrsta Tinnabókin sem gefin var út í lit. Sagan hafði reyndar birst í víðlesnu barnablaði í Belgíu sem framhaldssaga árin 1941-1942. Teiknimyndapersónan Tinni var búin til af belgíska myndasöguhöfundinum Georges Prosper Remi, betur þekktur sem Hergé.

Tinni og félagar komu til Akureyrar með rannsóknarskipinu Aurora í bókinni Dularfulla stjarnan

Þegar skoðuð er saga þeirra skipa sem heimsótt hafa Akureyri á undanförnum áratugum kemur ýmislegt skemmtilegt í ljós. Hver veit nema grúskarar framtíðarinnar eigi eftir að grafa upp spennandi fróðleik um heimsþekkta ferðamenn sem komu með Azamara Pursuit til Akureyrar sumarið 2018 og tóku myndir af bænum eða fengu sér kaffi á Bláu Könnunni?

Greinin birtist upphaflega á heimasíðu Grenndargralsins. Þar má sjá fleiri myndir sem tengjast efni greinarinnar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó