Þegar Laddi spilaði fótbolta í rigningunni á Melgerðismelum

Þegar Laddi spilaði fótbolta í rigningunni á Melgerðismelum

Brynjar Karl Óttarsson skrifar:

Gestir hátíðarinnar fundu ýmsar leiðir til að koma áfengi inn á svæðið

Fjörutíu ár eru liðin frá því að Laddi spilaði fótbolta á Melgerðismelum. Reyndar var tilefnið annað og meira en einungis knattspyrnuleikur. Stór fjölskylduhátíð sem Ungmennasamband Eyjafjarðar stóð fyrir í Saurbæjarhreppi í samstarfi við ungmennafélög í hreppnum. Hátíðin bar heitið Ein með öllu og stóð yfir helgina 30. – 2. júlí. Reiknað var með allt að 5000 gestum með möguleika á að hýsa mun fleiri ef til þess kæmi. Mikil vinna var lögð í undirbúning og allt lagt í sölurnar til að gera samkomuna að áhugaverðum valkosti fyrir Íslendinga á faraldsfæti sumarið 1978. Tveir dansleikjapallar voru reistir. Auglýsingar og fréttatilkynningar um hátíðina birtust í öllum helstu dagblöðum dagana og vikurnar fyrir setningu hennar föstudaginn 30. júní.

Auglýstir voru dansleikir öll þrjú kvöldin og diskótek alla dagana frá morgni til kvölds. Ýmis konar skemmtiatriði voru í boði allan daginn, bæði laugardag og sunnudag og voru þau ekki af verri endanum. Meðal skemmtikrafta má nefna Halla og Ladda, Ruth Reginalds, Baldur Brjánsson, Bjarka Tryggvason og Jörund Guðmundsson. Eflaust hafa margir verið spenntir fyrir norðlenskum harmonikkuleikurum og aðrir fyrir módelflugi yfir Melunum sem og varðeldi sem ætlað var að kveikja upp að loknum dansleikjum. Íþróttir skipuðu einnig nokkurn sess. Ný bílaíþrótt, svokallað Bílaskrallý, reiptog yfir Eyjafjarðará milli Eyfirðinga og Þingeyinga og knattspyrnuleikur milli skemmtikrafta og úrvalsliðs Baldurs Brjánssonar töframanns. Kynnir hátíðarinnar var Magnús Kjartansson Brunaliðsstjóri.

Hljómsveitirnar þrjár sem auglýstar voru, Brunaliðið, Mannakorn og Akureyrarsveitin Hver voru stærstu númerin á hátíðinni. Brunaliðið var nýstofnað, „funheitt“ band sem hafði í maí gefið út plötuna Úr öskunni í eldinn. Platan innihélt m.a. smellina Sandalar, Einskonar ást og eitt vinsælasta dægurlag síðari tíma, Ég er á leiðinni. Hljómsveitin var því stór á þessum tíma og í raun sama hvernig á það var litið. Meðlimir hennar óskuðu eftir 120 fermetra stóru sviði á Melunum til að spila á sem og þeir fengu. Hljómsveitin Mannakorn hafði örlítið meiri reynslu en Brunaliðið en hún var stofnuð þremur árum áður. Hún var þó ekki reynslumeiri en svo að í kynningum um sveitina í aðdraganda hátíðarinnar var flutningur hennar á Melgerðismelum sagður verða frumraun hljómsveitarinnar á opinberum vettvangi. Hljómsveitin Hver var á allra vörum sumarið 1978 eftir að hafa komið fram í sjónvarpsþættinum Menntaskólarnir mætast. Flutningur hljómsveitarinnar í þættinum var með slíkum glæsibrag að hann var nefndur í sömu andrá og flutningur Hljóma í Háskólabíói á Bítlaárunum þegar sú ágæta sveit sló rækilega í gegn. Auk hljóðfæraleikara skipuðu hljómsveitina þrjár ungar stúlkur sem voru þá nemendur við Menntaskólann á Akureyri. Þær áttu síðar eftir að geta sér gott orð sem flytjendur undir nafninu Erna, Eva og Erna.

Akureyrska hljómsveitin Hver með söngkonurnar Evu, Ernu og Evu skemmti á Melgerðismelum.

Allt var til reiðu fyrir einhverja metnaðarfyllstu útisamkomu í sögu heimabyggðar og þótt víðar væri leitað. Rok, rigning og kuldi setti sitt mark á hátíðina alla þrjá dagana. Aðsóknin varð minni af þeim sökum en gert hafði verið ráð fyrir og meira af unglingum á kostnað fjölskyldufólks sem sennilega hefur kosið að halda sér heima vegna tíðarfarsins. Lögreglan hafði í nógu að snúast. Þónokkuð var um slys og óhöpp í umdæmi hennar þessa helgi, óhöpp sem sum hver mátti rekja til hátíðarinnar á Melgerðismelum. Talsvert áfengi var gert upptækt sem kom þó ekki í veg fyrir ölvun hjá hluta hátíðargesta. Leitað var í bílum sem komu á svæðið og fundust t.a.m. 12 vínflöskur í einum og sama bílnum. Gestir fundu þó ýmsar leiðir til að koma áfengi inn á svæðið. Sögur þess efnis að einhverjir hefðu grafið vínflöskur í jörðu á Melunum áður en hátíðin hófst gengu milli manna og þá reyndi einn hátíðargestanna að synda með flösku í beltinu yfir Eyjafjarðarána. Hann missti flöskuna og komst við illan leik yfir ána. Þá þurftu laganna verðir einnig að hlúa að nokkrum köldum og blautum unglingum sem hafði láðst að klæðast eftir veðri.

Leiðinlegt veður kom ekki í veg fyrir að rúmlega 2000 hátíðargestir borguðu sig inn á svæðið og voru þeir mættir til að skemmta sér. Þrátt fyrir veðrið og einhver óhöpp bar mönnum almennt saman um að samkomuhald hefði tekist með miklum ágætum, þökk sé góðum undirbúningi og skipulagi stjórnenda og rúmlega hundrað manna starfsliði hátíðarinnar.

Fjölskylduhátíðin sumarið 1978 var fyrsta og eina sinnar tegundar á vegum Ungmennasambands Eyjafjarðar sem haldin var á Melgerðismelum. Aðstandendur hennar voru fullir bjartsýni um að leikurinn yrði endurtekinn að ári. Af því varð ekki. Hins vegar markaði hátíðin upphafið að samstarfi þriggja menntaskólastúlkna á Akureyri annars vegar og einnar vinsælustu dægurlagahljómsveitar landsins hins vegar. Erna Gunnarsdóttir, Eva Albertsdóttir og Erna Þórarinsdóttir gengu til liðs við Brunaliðið eftir samkomuna á Melunum. Komu þær m.a. við sögu á plötu sveitarinnar Útkall sem kom út árið 1979.

Ítarlegri umfjöllun og myndir má nálgast á heimasíðu Grenndargralsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó